Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:43]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, vissulega er ágætt að verið sé að fara yfir og ýmsir hafa komið að því að fara yfir hvernig við getum bætt kerfið og gert það sanngjarnara og þannig stigið skref í því. Ég er samt svolítið óþolinmóður í þessu, ég viðurkenni það. Ég vil bara sjá suma hluti gerast eins fljótt og verða má. Ég hef líka áður séð svona vinnu fara af stað og kannski ekki komið mikið út úr henni. Ég vil alveg treysta því þótt ég hafi væntingar og vonist til að svo verði, en ekki eiga allt undir því að svo verði og svo kannski endist það ekki.

Síðan eru bara alls konar hlutir að gerast núna þar sem við verðum að spyrna við fæti. Hér erum við sérstaklega að horfa á þessi byggðarlög sem eiga í vök að verjast. Þarna þarf fólk tryggingu fyrir sinni aðkomu. Annað sem þarf að fara að taka á — að horfa upp á þessa uppsöfnun veiðiheimilda á hendur örfárra fyrirtækja og einstaklinga. Við höfum bara ekki tíma til að horfa upp á þetta. Við verðum bara að gjöra svo vel að grípa inn í alla þessa hluti sem okkur finnst ekki æskilegir.

Ég myndi óska þess t.d. með strandveiðarnar að það liggi betur fyrir bara fyrir næstu vertíð meira öryggi og framtíðarsýn varðandi þær og fyrir þær byggðir sem eiga í hlut, fyrir þá sjómenn og þeirra fjölskyldur sem eiga í hlut. Ég hef fulla trú á því að ráðherrann okkar muni bregðast við og stíga skref fyrir næsta vor. Ég bara heiti og treysti á hana í því.