Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:45]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg hér. Það sem hér er lagt fram fellur mjög nærri stefnu okkar í Flokki fólksins. Við erum atfylgisfólk strandveiðisjómanna og teljum það hluta af eðlilegri, náttúrulegri atvinnustefnu að byggðarlögin hafi svigrúm og frelsi til að sækja sjóinn og færa björg í bú. Þó að við skulum ekki vanmeta dýrmætt framlag stórútgerðarinnar til hagkerfisins þá er ýmislegt þar sem vefst fyrir þorra landsmanna. Það felst ákveðin mótsögn í því að þjóðin eigi miðin en rétturinn sé samt í eigu fárra. Það er stóra verkefnið að sammælast um. Verkefnið núna er að tryggja strandveiðimönnum rétt, sjálfsagðan og eðlilegan rétt, til að sækja sjó, færa björg í bú og efla hagkerfi kjarna um gjörvallt land. Ég styð þessa þingsályktunartillögu.