Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:47]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti og hv. þingmaður. Ég þakka enn og aftur andsvarið. Já, ég held að það sé reglulega gott að minna okkur á það sem oftast að sjávarauðlindin er sameign íslensku þjóðarinnar og þannig á það að vera. Við þurfum að styrkja það enn frekar í sessi og snúa ofan af þeirri óheillaþróun sem við höfum verið að horfa upp á varðandi það hvernig fólk umgengst það sem er ríkt í okkar hjörtum varðandi það. Síðan er það líka með sjávarbyggðirnar þar sem kynslóð fram af kynslóð hefur lifað af sjósókn, að ég tali ekki um smærri byggðirnar sem eru búnar að missa allt vegna þess að það hefur verið selt í burtu eða safnað á einhverra hendur.

Það sem við höfum gert, ég og mínir félagar, er að við höfum lagt gríðarlega áherslu líka bara á rétt þessara byggðarlaga, þessa fólks, til að geta sótt sjóinn og sjávarauðlindina, að ekki sé hægt að taka það svo auðveldlega frá fólki þó að við þurfum vissulega að sameina þetta tvennt, annars vegar að þjóðin njóti sem mests af sjávarauðlindinni en líka að við virðum rétt og mikilvægi byggðanna og byggðafestuna og hvað það skiptir miklu máli fyrir okkur öll að svo sé og að smærri útgerðirnar og slíkt fái notið sín.

Ég segi það bara enn og aftur að það verður að snúa ofan af þessari samþjöppun. Hún er búin að vera gríðarleg síðustu árin og þetta er bara ekki boðlegt. Við sem hér störfum eigum að gera eitthvað í því sem allra fyrst. Þetta er kannski fyrir utan málið sem ég er sérstaklega að tala hér um en þarna er annað stórt verkefni sem við verðum að takast á við.