Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:04]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, draga úr greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar og sporna við þenslu í hagkerfinu, sem er svo sannarlega góðra gjalda vert en þetta á aðallega að gerast í gegnum bótakerfið, t.d. með vaxtabótum og barnabótum. Eins og staðan er þarf vissulega að koma til móts við fjölskyldur landsins en ég velti fyrir mér að eins og þingsályktunartillagan er sett upp þá bólar ekkert á því að koma í veg fyrir eða stöðva sjálftöku bankanna af heimilum landsins heldur er gengið út frá því að þeir fái að taka allt sitt en svo komi ríkið og bæti heimilunum það upp með skattpeningunum okkar.

Væri ekki réttara að finna leiðir til að draga úr þeim álögum á fjölskyldur landsins sem verið er að leggja á þær með óhóflegum vaxtahækkunum bankanna, fyrirtækja sem hafa enga ástæðu til að auka álögur sínar með þessum hætti? Að auki er lagt til að tímabundnir hvalrekaskattar verði lagðir á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta. Ég er algerlega sammála hvalrekaskatti á útgerðina en stærsti hvalrekinn í þessu ástandi hefur farið til bankanna sem fiskar sem aldrei fyrr frá heimilum landsins eins og ofsahagnaður þeirra sýnir glöggt fram á. Í þingsályktunartillögunni er þeim algerlega hlíft og varla minnst einu orði á þeirra þátt.

Af hverju er það? Finnst hv. þingmanni engin ástæða til að þeir sýni samfélagslega ábyrgð, þó ekki væri nema með því að hlífa heimilunum við gríðarlegum vaxtahækkunum? Í því samhengi má velta fyrir sér hvort þingmaðurinn sé tilbúinn til að styðja hækkun bankaskatts til að ná einhverju af hvalreka þeirra til baka eða beinist hvalrekaskatturinn bara að stóru útgerðunum?