Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:06]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og mjög góða punkta sem koma hér inn. Staðreyndin er auðvitað sú að til langs tíma er ekki skynsamlegt að ríkið sé að niðurgreiða vexti sem renna til bankanna. Því er ég 100% sammála. Þetta felst einfaldlega í því að bankarnir geta tekið til sín hagnaðinn og ríkið niðurgreiðir. Það er ekki góð leið. Þess vegna ættum við til langs tíma að stefna að því að húsnæðisaðgerðir ríkissjóðs taki form uppbyggingar, að við séum með stór stofnframlög og við séum með styrki til að tryggja óhagnaðardrifið húsnæði og að fólk geti keypt á hagstæðum kjörum svo að við setjum ákveðið aðhald á markaðinn, bæði þegar kemur að almennu leiguverði og almennt á kaupverð fasteigna. Staðreyndin er sú að við erum í neyðarástandi núna og það tekur tíma að byggja og þó að ég sé hlynnt því að farið sé í þá vegferð til lengri tíma að setja peningana frekar í uppbyggingu en í niðurgreiðslu vaxta er bara fólk sem til langs tíma getur ekki beðið. Þess vegna snýr þessi tillaga að því að gera það sem við getum gert snöggt og örugglega nú.

Varðandi fjármögnunina á þessu erum við ekkert mótfallinn því að skoða þá leið að farið sé í einhvers konar tekjuöflun frá bönkunum. Hér var aðallega horft til þess að við sjáum hvalreka sem koma beint út frá verðmæti afurða í sjávarútvegi í því samhengi og fjármagnstekjurnar sem koma af eignamörkuðum. Þetta er eitthvað sem ég hvet hv. þingmann til að ræða bara í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég tel að hún sitji. Þetta er eitthvað sem við erum alveg opin fyrir að skoða í því samhengi, varðandi tekjuöflun.