Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:07]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er alveg rétt að fara þarf í miklu meiri uppbyggingu. Hún hefur bara alls ekki verið eins og hún ætti að vera í allt of mörg ár og þess vegna er staðan eins og hún er á fasteignamarkaði. En þetta er staðan núna og staðreyndin er að á fyrsta helmingi þessa árs voru bankarnir með 32 milljarða í hagnað. Alveg eins og að taka af útgerðunum, alveg með fullri virðingu fyrir því, hlýtur að vera hægt að fara þangað líka. Það hlýtur einhvern veginn, ef það næst samstaða á Alþingi um það, að vera hægt að fara í þá með einhverjum hætti en að þeir séu ekki bara alltaf eins og ríki í ríkinu. Ég vil meina að þetta sé algerlega hægt.

Í tillögunni er reyndar líka hvatt til uppbyggingar hagkvæmara húsnæðis í stað þess að hvetja til skuldsetningar, að því er virðist með vaxtabótum. Ég velti alltaf fyrir mér þegar ég sé eitthvað svona sagt hvort það sé ekki frekar lífsnauðsyn að fólk komi sér þaki yfir höfuðið en að vaxtabætur hafa einhver áhrif þar á. Fólk bara þarf að gera þetta. Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann hvernig hún skilgreinir hagkvæmara húsnæði.

Svo langar mig bara að segja að hér á eftir mun ég mæla fyrir frumvarpi um að ekki megi hækka leigufjárhæð eða greiðslur á verðtryggðum lánum vegna hækkunar vísitölu neysluverðs og ég vona innilega að ég fái stuðning við það mál frá þingmanninum og fleirum hér á þingi.