Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sumu leyti ánægjulegt að þetta mál sé komið hér fram. Ég sé að þetta er nokkurs konar stuðningsyfirlýsing við ríkisstjórnina þar sem henni er falið að hrinda í framkvæmd mjög óljósum hugmyndum og þær eru ekki mjög útfærðar. Allt traust flutningsmanna er sett á ríkisstjórnina og ég get alveg skilið það.

Ég ætla aðeins að ræða um fyrsta lið þessarar tillögu sem er svokölluð leigubremsa. Það kom mér pínulítið á óvart að hv. fyrsti flutningsmaður skuli leggja fram tillögu um að grípa til aðgerða af þessu tagi, þ.e. leigubremsu, það skiptir ekki máli hvort það er að danskri fyrirmynd eða einhverri annarri fyrirmynd. Þetta er auðvitað eitt form af leiguþaki. Nú var það svo að hagfræðinga greinir á um margt en það er eitt sem ég hygg að sé almenn samstaða um, og auðvitað skera einhverjir hagfræðingar sig úr, og það er að leiguþak eða leigubremsur séu af hinu vonda. Eigendur íbúðarhúsnæðis hætta að leigja út, þ.e. framboð dregst saman, fjárfestar verða afhuga því að fjárfesta í nýju leiguhúsnæði, framboð verður minna, viðhaldið situr á hakanum, gæðum húsnæðis hrakar og það er fyrst og fremst hálaunafólk sem situr þá að því að njóta leiguþaksins en láglaunafólk situr úti í kuldanum — þetta ætti hv. fyrsti flutningsmaður að þekkja vel — og hreyfanleiki á húsnæðismarkaði minnkar. (Forseti hringir.)

Er hv. þingmaður á því að þau lögmál sem gilda (Forseti hringir.) á leigumarkaði séu önnur heldur en almennt á markaði þegar kemur að verðstýringu?