Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem kemur ekki á óvart. Ég held að það sé grundvallaratriði að hafa í huga að í fyrsta lagi hefur umræða um leigubremsu þróast mikið frá því að fyrstu kenningar, sem oft er verið að vitna til þessa dagana, komu fram í kringum 1960. Staðreyndin liggur auðvitað í því að markaðir víða eru hvorki fullkomnir né fullkomlega frjálsir. Það er ekkert til sem heitir frjáls markaður, þetta er allt skapað af löggjafanum og við erum að sjá rosaleg ruðningsáhrif af óheftum leigumarkaði.

Til að koma samt sértækt inn á þetta bendi ég hv. þingmanni á að það sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu er að komið sé í veg fyrir tilhæfulausar hækkanir. Ekki er verið að koma í veg fyrir að eðlilegum kostnaði sé mætt, að fólk geti staðið undir viðhaldi, heldur það að af stað geti farið spírall sem tekur mið af verðmyndun í hagkerfinu. Þetta er þekkt fyrirbrigði til að hægja einmitt á verðbólgu í landinu, að ekki sé farið í of miklar hækkanir. Þetta þekkist á mörgum mörkuðum þar sem er fákeppni. Þó að það megi kannski ekki skilgreina leigumarkaðinn sem fákeppni per se er hann mjög sérstakt fyrirbæri vegna þess að um lífsnauðsyn og grunnþjónustu er að ræða. Það þarf einmitt í þessu samhengi líka að huga að vernd þeirra sem eru á leigumarkaði, þ.e. getu leigusala til að segja upp samningi með stuttum fyrirvara og þess háttar. Þetta eru auðvitað varnir sem hafa verið trassaðar í þessari ríkisstjórn sem gerir það að verkum að staða leigjenda er mjög óörugg.

Þetta eru tímabundnar aðgerðir, bendi ég hv. þingmanni á, þetta snýst um að koma í veg fyrir verðspíral á svona tímum. Við sjáum að víða í Evrópu er í dag verið að setja hámark á verð, til að mynda í orkufyrirtækjum, og það er ekkert óeðlilegt að gripið sé til sértækra aðgerða þegar við lendum í svona verðþrýstingi.