Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:16]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði kosið að hv. þingmaður hefði þá horft á vandann út frá framboðshlið. Það er auðvitað framboðsvandi sem við er að glíma og það hefði þá verið betra ef flutningsmenn hefðu horft til þess að reyna að leysa framboðsvandann í stað þess að fara þessa leið sem ég er algerlega sannfærður um að mun hafa þveröfug áhrif í þessum góða tilgangi sem ég veit að flutningsmenn eru.

Ég hjó eftir því að þetta er tímabundið. Það er einmitt talað um hvalrekaskatta, að þetta eigi að vera tímabundnir skattar o.s.frv. og að m.a. verði settur á viðbótarfjármagnstekjuskattur — með leyfi forseta ætla ég að vitna beint í greinargerðina:

„… til að bregðast við ójafnri dreifingu aukinna ráðstöfunartekna eftir að vextir voru lækkaðir og kynt var undir bólumyndun á eignamörkuðum í heimsfaraldrinum.“

Gott og vel, segjum sem svo að þessi staðhæfing sé rétt. Við getum svo sem rætt það við betra tækifæri, en ef þessi staðhæfing er rétt, eru þá ekki rökin fyrir þessum hvalrekaskatti, tímabundinni hækkun fjármagnstekjuskatts, — yfir einhverju ákveðnu marki geri ég ráð fyrir en ég átta mig ekki á hvað flutningsmenn ætla sér — ekki brostin? Eru þau þá ekki brostin með hækkun vaxta sem hefur átt sér stað? Ef forsendan fyrir hvalrekaskattinum þegar kemur að fjármagnstekjuskattinum hefur verið sú að vextir hafi lækkað þá bresta rökin fyrir hvalrekaskattinum þegar við höfum séð stýrivexti hækka hér töluvert skart. Ég get síðan tekið þá umræðu við hv. þingmann hvort þeir hafi ekki hækkað of skart og of mikið og hvort önnur stjórntæki hefðu ekki verið skynsamlegri í þeim efnum en það gæti verið skemmtilegri umræða við annað tilefni.