Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:19]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við gætum verið hérna lengur en tvær mínútur sé ég. Rót framboðsvanda er að hér var ráðist í örvandi aðgerðir og farin var sú leið að reyna að styðja við heimilin og fyrirtækin í landinu með því að kynda undir eignamörkuðum. Það liggur alveg fyrir að eftirspurnin var ótrúleg á þessum stutta tíma sem Covid og heimsfaraldur komu inn. Rót framboðsvanda? Við erum bara að horfa upp á það, m.a. í núverandi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, að verið er að skera niður í framlögum til húsnæðis á milli ára. Þetta er auðvitað vandi sem á sér langan aðdraganda en við fáum beint í fangið vegna þess að það er farið í svo ofboðslega eftirspurnarhvetjandi aðgerðir á skömmum tíma sem setja markaðinn algjörlega úr skefjum. Það er þessi markaðsbrestur sem ég er að tala um. Ástæðan fyrir því er að við lifum á svona tímum og það er ekki búið að sinna grundvallaratriðum. Stundum þarf að fara aðrar leiðir til að vernda ákveðna hópa.

Varðandi viðbótarfjármagnstekjuskatt, bólumyndun, þá liggur það alveg fyrir og hægt er að lesa fjölda pappíra um þetta. Nú síðast var Gylfi Zoëga, sem sat í peningastefnunefnd, að tala einmitt um að þetta hafi verið rótin að þeirri hækkun á húsnæðisverði sem við sáum.

Varðandi það hvort þetta sé brostið vegna þess að vextir séu að fara hækkandi held ég að það sé nóg að horfa til að mynda bara á fjárlög þessarar ríkisstjórnar og hvað er spáð að komi inn í fjármagnstekjuskatt á þessu ári, sem er ekkert svo mikið minna en í fyrra. Það liggur því fyrir að það sem fer hátt upp fer ekki jafn hratt niður. Í öðru lagi þarf líka að hafa í huga að þetta snýst um að klóra til baka eitthvað af ósanngjarnri rentu sem hafði ekkert að gera með fjárfestingarsnilld þeirra aðila sem sátu á ákveðnum eignum í fyrra og hitteðfyrra heldur þá staðreynd að þeir voru í umhverfi þar sem allt var á uppleið á sama tíma. Og heimilin eru núna að mæta hinum endanum á þessum hækkunum.