Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:21]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur margt gengið ofboðslega vel á Íslandi en staðan er samt þannig að fjöldi fólks er í vandræðum vegna hækkandi verðbólgu og hækkandi vaxta. Verðlagseftirlit ASÍ birti í dag samantekt á því hvernig hækkanir á helstu kostnaðarliðum, húsnæði, samgöngum, matvöru og heimilisbúnaði, birtast í mánaðarlegum útgjöldum hjá mismunandi heimilisgerðum. Þar kemur m.a. fram að útgjöld fjölskyldu með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 millj. kr. lán hafa hækkað um 128.607 kr. á mánuði síðastliðið ár. Mánaðarleg útgjöld hjá einstaklingi í eigin húsnæði með 30 millj. kr. lán hafa hækkað um 71.000 kr. Einstætt foreldri með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 39 millj. kr. lán greiðir 105.000 kr. meira á mánuði í helstu útgjaldaliði heldur en á sama tíma í fyrra. Svona er staðan. Kaupmáttur launa fer rýrnandi. Við sáum í tilkynningu síðast í gær frá Hagstofunni staðfestingu á þessu. Kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst saman um 1,5% á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Greiðslubyrði af húsnæðislánum hefur rokið upp. Við þekkjum alveg dæmi þess hjá fólki sem er með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum að vaxtakostnaðurinn hefur jafnvel aukist um allt að 100.000 kr. á mánuði á síðastliðnu ári.

Þegar hér er um þetta rætt vísar hæstv. ríkisstjórn alla jafna til þess að þegar hafi verið samþykktar mótvægisaðgerðir, í júní, en vandinn er bara sá að verðbólgan hefur að mestu étið þessar mótvægisaðgerðir upp. Það er bara þannig. Og hluti þess sem er kallað mótvægisaðgerðir er auðvitað bara flýting á lögbundinni hækkun á greiðslum almannatrygginga sem hefði ellegar þurft að hækka miklu meira um næstu áramót.

Þriðjungur launafólks á erfitt með að láta enda ná saman. Þetta kemur bæði fram í könnun sem Varða - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi í fyrra og í könnun sem fyrirtækið Prósenta vann fyrir Fréttablaðið. Þar eru það reyndar 25% en þetta er alla vega býsna stór hópur, skuggalega hátt hlutfall. Hjá þeim sem eru með undir 400.000 kr. í heimilistekjur á mánuði eiga tæplega átta af hverjum tíu ekkert eftir í veskinu í lok mánaðar. Svona er staðan. Ójöfnuður eins og hann er mældur samkvæmt Gini-stuðlinum er farinn að aukast milli ára og hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað fer hækkandi. Þar er staðan auðvitað verst hjá leigjendum. Þetta er bara það sem gögnin segja okkur og núna er ég að tala um nýjustu gögnin, ég er ekki að tala gögn frá 2020 eða 2019 heldur allra nýjustu gögnin sem við höfum og hljótum að byggja þessa umræðu hér í dag á.

Við getum alveg fagnað því sem hefur gefist vel hérna á Íslandi. Við þurfum ekkert að mála stöðugt skrattann á vegginn án þess að detta einhvern veginn í það að loka augunum fyrir því að það er bara fullt af fólki sem berst nú í bökkum. Skylda okkar hér á Alþingi, skylda okkar sem förum með fjárstjórnarvaldið, eða skylda meiri hlutans í rauninni, er auðvitað að bregðast við þessu ástandi og leita allra leiða til að létta undir með fólki í lífsbaráttunni. Kjörin okkar hér inni eru verðtryggð alveg í bak og fyrir en það sama verður ekki sagt um allt það fólk sem reiðir sig með einum eða öðrum hætti á opinbera kerfið, opinbera þjónustu og velferðarkerfið okkar.

Samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnarinnar eiga barnabætur að rýrna að raunvirði. Vaxtabótakerfið mun líka halda áfram að drabbast niður. Ofan á það verðbólguskot sem við höfum verið að glíma við undanfarna mánuði og ofan á vaxtahækkanir Seðlabankans vill hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn hans bæta almennum gjaldahækkunum á venjulegt fólk, flötum gjöldum sem við vitum að bíta fastast á þeim heimilum sem verja hæstu hlutfalli tekna sinna til neyslu. Þetta er alveg ofboðslega vond skattapólitík og lýsir einhvers konar skorti á raunveruleikatengingu gagnvart venjulegum heimilum á Íslandi. Við aðstæður eins og við erum að glíma við núna er hlutverk hagstjórnarinnar og ríkisfjármálanna í raun tvíþætt, annars vegar að verja viðkvæmustu hópana fyrir verðbólgunni, skýla þeim tekjulægstu, og hins vegar að kæla hagkerfið með aðhaldi í ríkisfjármálunum. Ríkisstjórnin bregst algerlega í fyrra hlutverkinu. Þau ætla ekki að beita vaxtabótakerfinu og barnabótakerfinu til að verja lágtekjufólk og millitekjufólk í vetur heldur þvert á móti láta þessi stuðningskerfi rýrna. Hvað síðara hlutverkið varðar, að kæla hagkerfið, er herkænskulist ríkisstjórnarinnar í raun tvíþætt og kemur annars vegar fram á útgjaldahliðinni þar sem er gert ráð fyrir raunlækkun til flestra málaflokka. Þarna er ætlunin í raun að fjársvelta almannaþjónustuna, fresta uppbyggingu, draga úr innviðafjárfestingum, fresta því að taka á vandanum í heilbrigðis- og velferðarmálum. Hins vegar kemur aðhaldið fram á tekjuhliðinni eins og ég nefndi áðan en þar er farin sú leið að þrengja að sérstaklega lágtekjufólki með hærri neyslusköttum, hærri gjöldum á áfengi, tóbak, bensín, hærra bifreiða- og kílómetragjaldi o.s.frv. Þannig er í raun verið að framkalla tvöfaldan skell fyrir fólkið í lægri tekjuendanum. Þessi heimili fá bæði að kenna verst á verðbólgunni sjálfri og á þeim meðulum sem er beitt gegn henni.

Þessi þingsályktunartillaga sem þingflokkur Samfylkingarinnar stendur að og hv. þm. Kristrún Frostadóttir mælti fyrir rétt í þessu felur í sér aðra leið út úr dýrtíðinni. Við leggjum til að ráðist verði í þær aðgerðir sem hér var fjallað um. Hv. þm. Óli Björn Kárason hafði á orði að þetta væri voða almennt og í raun væri verið að treysta ríkisstjórn og ráðuneytum að einhverju leyti fyrir útfærslunni og það er bara alveg hárrétt hjá honum. Þó það nú væri. Ég held að við vitum öll hér í þessum sal að þegar gripið er til grundvallaraðgerða á sviði efnahagsmála, ríkisfjármála og skattamála er það oftast þannig að útfærslan er búin til inni í ráðuneytum. Ég held að við verðum bara að horfast í augu við það. Þar er mesta svigrúmið, þar er sérfræðiþekkingin, það er þar sem verkfærin eru til að útfæra svona lagað í hörgul. Það er ekkert nýtt og það gildir auðvitað um þetta sem og annað.

Við leggjum til í fyrsta lagi leigubremsuna sem var rædd hér áðan, að lögfest verði leigubremsa að danskri fyrirmynd með víðtækum undanþágum, m.a. fyrir leigusala sem hafa þurft að ráðast í nauðsynlegt viðhald. Þetta er ofboðslega mikilvæg aðgerð vegna þess að sögulega hefur leiguverð auðvitað fylgt eignaverði á húsnæði og við vitum hvernig eignaverðið hefur þróast undanfarna mánuði. Það er til mikils að vinna að létta undir með leigjendum við þessar kringumstæður og koma í veg fyrir stjórnlausar leiguverðshækkanir núna í framhaldinu. Þetta er líka aðgerð sem heldur aftur af hækkun vísitölu neysluverðs með beinum hætti og spornar þannig með beinum hætti gegn verðbólgu.

Í öðru lagi leggjum við til að vaxtabótakerfinu verði beitt til að styðja við lágtekju- og millitekjuhópa sem glíma við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána. Hér þurfum við náttúrlega að hafa í huga að vaxtabótakerfið er ekki neitt neitt miðað við það sem áður var. Búið er að brjóta þetta kerfi niður, í raun án þess að grundvallarumræða hafi farið fram um það hér á þinglegum vettvangi. Það var aldrei tekin sú ákvörðun með þingsályktun eða í stjórnarsáttmála að láta vaxtabótakerfið drabbast niður, það er bara eitthvað sem síðustu tvær ríkisstjórnir hafa látið gerast sjálfkrafa með því að uppfæra t.d. ekki eignaskerðingarmörkin. Í staðinn hefur þessum stuðningi verið sérstaklega beint til tekjuhæstu heimila í formi skattfríðinda vegna séreignarsparnaðar. Hér áðan var talað um vissa galla á vaxtabótakerfinu en það er nú bara þannig að meðan þetta kerfi er eini höggdeyfirinn sem hefur verið hannaður hjá Skattinum og í fjármálaráðuneytinu til að styðja við tekjulág heimili sem skulda mikið þá held ég að það sé eðlilegt að nota þessar reiknireglur og þetta kerfi til að grípa til aðgerða vegna þess að það liggur mjög á þeim aðgerðum. Það verður að styðja við þessi heimili strax. Það er annaðhvort hægt að gera með því að hækka eignaskerðingarmörkin og gefa þá möguleika á einhvers konar fyrirframgreiðslu eða með einskiptis vaxtaniðurgreiðslu eins og var gert hérna 2011 og 2012.

Í þriðja lagi leggjum við til að barnabótakerfið verið styrkt, (Forseti hringir.) skerðingarmörkin hækkuð og í fjórða lagi leggjum við til (Forseti hringir.) tekjuöflunaraðgerðir sem samtals munu (Forseti hringir.) fela það í sér að þetta þingmál er í raun afkomubætandi fyrir ríkissjóð og mun sporna gegn þenslu.