Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög skammur tími til að bregðast við þessum stóru spurningum en við getum kannski skipt því á milli okkar í andsvörum. Til að takast á við það sem hv. þingmaður var að tala um varðandi fjármagnstekjurnar er staðreyndin sú að einstaklingar sem eru með atvinnurekstur og sérstakt félag í kringum þann atvinnurekstur geta í raun skammtað sér launatekjur. Þeir geta bara sagt á sínum reikningum að svona mörg prósent af því sem þeir eru með í tekjur séu fjármagnstekjur og hitt séu launatekjur og þá í raun skilgreint hve háa skatta þeir borga. Fólk borgar miklu lægri skatta af fjármagnstekjum en af launatekjum.

Á Norðurlöndunum, til að mynda í Noregi, er það þannig að ársreikningur fyrirtækisins er skoðaður, hversu miklar eignirnar eru. Síðan er bara viðmiðunarávöxtunarkrafa sem tekur mið af ríkisvöxtum eða einhverri almennri ávöxtunarkröfu í landinu sem reiknar þá út hve mikið þessar eignir gætu hafa vaxið að virði og þar með talið fjármagnstekjur viðkomandi aðila og síðan er restin bara skattlausar launatekjur. Þetta er mjög þekkt leið til að komast undan skattlagningu. Það er fullt af fólki sem notar slík félög sem telur heiðarlega fram launatekjur en það er hópur af fólki sem gerir það ekki og þetta er ein leið til skattundanskota. Þetta er ekki breyting á skattkerfinu, þetta er í raun bara leið til að innheimta rétta skatta.

Varðandi það hvort lækkun vaxta hafi skapað húsnæðisbólu, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason var líka að ræða hér áðan — nú hef ég um 30 sekúndur. Þetta er bara staðreynd sem er hægt að sjá skrifaða víða. Svona virka eignamarkaðir. Seðlabankinn sjálfur hefur lýst því yfir að eitt af markmiðum vaxtalækkunar sé að örva eignamarkaði. Þetta var fyrirséð. Ákvörðun var tekin um að fara þessa leið. Ef ríkið hefði brugðist fastar við, stigið stærra skref fyrr, hefði Seðlabankinn ekki þurft að grípa til þess ráðs að fara í svona hraða vaxtalækkun og oförva eignamarkaði. Um það snýst gagnrýnin, hvort þú beitir ríkinu eða Seðlabankanum vegna þess að það eru hliðaráhrif af vaxtalækkun.