Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:43]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg hér. Ég átti nú ekki við að enginn hefði hreyft við þessu samhengi á milli lækkaðra vaxta heldur átti ég við að stjórnvöld, eða Seðlabankinn sem stóð fyrir þessu, hefðu ekki séð þetta nægilega vel fyrir. Þetta var kannski ætlað atvinnulífinu til góða en varð fyrst og fremst hvati til að allir hlupu og fóru að endurfjármagna og kaupa og stækka við sig. Það var það sem ég átti við. Ég heyrði nú margt af því sem hv. þm. Kristrún Frostadóttir sagði á sínum tíma.

Hvað sem önnur sveitarfélög eru að aðhafast þá hefur straumur fólks alls staðar á landinu á undanförnum árum og áratugum verið af landsbyggðinni til Reykjavíkur, það mátti alveg sjá það fyrir löngu. Við þurftum að gera stórátak í samgöngum í höfuðborginni, stórátak í að fjölga lóðum og húsnæði. Eflaust reyndu velmeinandi stjórnmálamenn að gera eitthvað í því en það var bara ekki nóg að gert miðað við aðstæður. Við erum ekki að reyna að finna sökudólginn, við erum bara að benda á stóra samhengið. Þetta er samspil þátta sem mennskir menn, breyskir og ófullkomnir eins og við öll erum, sáu ekkert endilega fyrir og þetta er dálítið eitraður kokteill sem við stöndum andspænis. Hér er réttilega verið að reyna að bregðast við.

Við erum öll, held ég, með einum eða öðrum hætti sammála því að það þarf að bregðast við og verja viðkvæmasta fólkið. Það er aðalmálið að reyna að stemma stigu við þessu spilverki hjólsins og hamstranna sem skilur hamstrana eftir lamaða en eigendur hjólsins eftir moldríka. Þar eru einhvern veginn ekki margir góðir kostir í boði að óbreyttu. En ég segi: Ef við ætlum að ná samstöðu, reynum þá að gera það með friðsemd og vinsemd að leiðarljósi. Þá fáum við kannski þessa tómu bekki í lið með okkur.