Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:46]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða hérna um vaxtabætur. Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni frá síðasta þingi um áhrif hækkunar fasteignamats liggur fyrir að vegna þess muni um 2.800 framteljendur missa réttinn til vaxtabóta um næstu áramót. Það þýðir að um 2.800 fjölskyldur sem hefðu átt rétt á vaxtabótum áður en fasteignamat eignar þeirra hækkaði munu ekki eiga hann þó að aðstæður þeirra séu í raun verri en áður vegna hækkandi vöruverðs í blússandi verðbólgu og gríðarlegrar hækkunar vaxta. Jafnframt kemur fram í svari ráðherra að áætlað sé að allt að 90% þeirra sem þó fá vaxtabætur muni verða fyrir auknum skerðingum þeirra vegna hærra fasteignamats. Hjá 90% þeirra sem þó fá vaxtabætur verða þær skertar á sama tíma og húsnæðiskostnaður er hærri en nokkru sinni fyrr. Þetta nær ekki nokkurri átt. Samkvæmt svari ráðherra kemur ekki til greina að hækka skerðingarmörk vaxtabóta vegna hækkandi fasteignamats. Í svarinu kemur fram að spenna sé mikil í þjóðarbúinu á alla mælikvarða sem kalli á aðhald á sviði peninga- og ríkisfjármála. Í svari ráðherra segir orðrétt:

„Hækkun eignaskerðingarmarka myndi draga úr sjálfvirkri sveiflujöfnun kerfisins, þvert á hagstjórnarstefnu stjórnvalda, og myndi eingöngu gagnast íbúðaeigendum, einkum þeim sem hafa orðið eignameiri vegna hækkunar íbúðaverðs.“

Með öðrum orðum: Þið getið étið það sem úti frýs. Í svari fjármálaráðherra fannst honum einnig ástæðu til að benda á það í þessu samhengi að fjárhagsstaða heimilanna hafi almennt styrkst síðustu ár þvert á tekjuhópa og að fjárhagsstaða fólks sem býr í eigin húsnæði hafi styrkst sérstaklega vegna mikillar hækkunar húsnæðisverðs.

Nú er það svo að ég vildi óska að ekki væri þörf á vaxtabótum. Barátta mín snýst frekar um að bankarnir fái ekki að blóðmjólka heimilin og græða stórkostlega á því. Það er eitthvað mjög öfugsnúið við það að svo komi ríkið með plástur í formi vaxtabóta og leggi út í kostnað til að bæta heimilunum um skaðann sem bankarnir hafa valdið úr vösum heimilanna sjálfra, þ.e. skattgreiðenda. En að því sögðu eru vaxtabætur nauðsynlegar þegar staðan er eins og hún er og svar fjármálaráðherra byggir á vandræðalega röngum forsendum og vanþekkingu hinna blindu á nokkrum staðreyndum málsins, eins og t.d. að hækkun fasteignaverðs styrkir ekki lausafjárstöðu fólks. Hækkun fasteignaverðs er ekki peningar í vasa. Hækkun fasteignaverðs eykur ekki ráðstöfunarfé heimilanna og hækkun fasteignaverðs hefur engin áhrif fyrr en fasteignin seld en þá þarf líka að kaupa aðra fasteign dýrara verði en annars, þannig að þegar upp er staðið, hver er þá hagnaðurinn í raun? Það má alla vega velta því fyrir sér. Það er þyngra en tárum taki að fjármálaráðherra landsins skuli ekki sýna meiri skilning á stöðunni sem blasir við en hún er einfaldlega sú að 2.800 fjölskyldur sem hafa það lágar tekjur og skulda það mikið að þær hefðu átt að fá vaxtabætur áður en vextir fór að hækka, munu ekki fá þær þegar vextir hafa hækkað svo að skuldabyrði þeirra hefur aukist um tugi þúsunda á mánuði, vegna þess að verðmat á íbúum þeirra hefur hækkað á pappír þó að ráðstöfunartekjur þeirra séu þær sömu og áður. Að svipta þetta fólk vaxtabótum heitir einfaldlega að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Um það hljótum við öll að vera sammála hvað svo sem okkur finnst um vaxtabætur að öðru leyti.