Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

viðbrögð opinberra aðila við náttúruvá.

[14:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin og fagna hennar sýn á það að við þurfum að nýta reynsluna til frekari framfara. Nú er það svo að verkefni tengd náttúruhamförum falla undir starfssvið margra ráðuneyta, svo sem umhverfisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytisins, innviðaráðuneytisins og stundum fleiri og þá er spurning: Hvernig samhæfum við viðbrögð milli ráðherra ráðuneyta, tryggjum yfirsýn og höldum utan um lærdóminn af hverjum atburði? Hvar liggur ábyrgð á samhæfingu verkefna sem tengjast náttúruvá? Það er bent á það í þessum tíu umsögnum sem bárust um málið sem lagt var fram að það eru ýmis grá svæði og vandamál sem hafa verið að koma upp. Því spyr ég að lokum: Mun ráðherra beita sér fyrir því að taka til skoðunar samræmd viðbrögð við náttúruvá og að möguleg göt í kerfinu verði lagfærð?