Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

greiðslureikningar.

166. mál
[18:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að eins og venja er þegar umsagnir berast þá eru þær iðulega matsatriði. Að nokkru hefur verið tekið tillit til ábendinga sem hafa komið fram í því ferli sem er afstaðið, bæði í áformaskjali og hér í þinglegri meðferð. En svo stendur alltaf eitthvað út af og nú gefst umsagnaraðilum aftur tækifæri til að bregðast við málinu í þeim búningi sem það nú er.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er framfaramál og við erum að sjá birtast í frumvarpi ákveðið skref í átt að nýrri framtíð um viðskipti milli viðskiptabankanna og neytenda og það sem hefur verið hefðbundið í þeim heimi hefur svo sem verið að breytast töluvert. Kannski var síðasta stóra breytingin í því sú þegar við fengum snjallforrit í símana okkar til að stunda bankaviðskipti og smám saman eru þessi plastkort að hverfa. Einhvern veginn er það nú þannig að manni finnst ekki langt síðan mikið af viðskiptum fór fram með tékkheftum þar sem voru handskrifaðir tékkar. Sú tíð er löngu liðin og hér erum við að horfa inn í enn frekari framtíð um greiðslureikninga þar sem millifærslur verða gerðar með öðrum hætti en við höfum þekkt til þessa. Réttindi neytenda eru í forgrunni og verið er að lágmarka kostnað fyrir neytendur, auka gegnsæi og, að sjálfsögðu, auka öryggi. Í þessu frumvarpi er verið að innleiða samevrópskar reglur þannig að þetta mun gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.