Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

lögreglulög.

32. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, um lögmæt fyrirmæli lögreglu. Þetta er hvorki stórt né viðamikið frumvarp en það gegnir mikilvægu hlutverki að mati okkar í Pírötum.

Við leggjum til að á undan orðinu „fyrirmælum“ í 19. gr. lögreglulaga komi orðið „lögmætum“. Þetta er gert til að árétta lögin í landinu og tryggja að ávallt fari fram mat á því hvort þau fyrirmæli sem lögreglan gefur borgurunum hverju sinni séu lögmæt, hvort sem það er af hálfu lögreglu eða dómstóla. 19. gr. lögreglulaga felur nefnilega í sér víðtæka valdbeitingarheimild lögreglu en hún segir fyrir um að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til að halda uppi lögum og reglum á almannafæri.

Það sem við leggjum til að gera er að bæta við að almenningi sé skylt að fylgja lögmætum fyrirmælum lögreglu. Þetta er gert til að árétta að fyrirmæli lögreglu um að viðkomandi einstaklingur sem verður fyrir þeim skuli víkja af ákveðnum stað eða gera eitthvað annað sem lögreglan telur viðkomandi borgara þurfa að gera séu byggð á lögmætum grunni og séu í samræmi við stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna. Það hefur nefnilega borið á því að lögreglan hafi gefið mótmælendum fyrirmæli um að fara af þeim stað þar sem þau eru að mótmæla og í raun hætta þannig sínum mótmælum. Þetta skerðir auðvitað rétt fólks til að mótmæla og til að koma saman í friðsamlegum mótmælum.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur lögreglan veigamiklu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi. Í lögreglulögunum er þess m.a. getið að embættið hafi víðtækar valdheimildir og umboð til þess að halda uppi lögum og reglu. Það er þannig í verkahring lögreglu að sporna við og rannsaka hvers kyns afbrot, stuðla að almanna- og réttaröryggi landsmanna, aðstoða borgarana og yfirvöld eftir því sem við á o.fl. Til þess að lögreglan geti sinnt þessum skyldum sínum þarf hún að njóta trausts í samfélaginu, sem af fræðimönnum er talin lykilforsenda fyrir því að almenningur reiði sig á og treysti þjónustu lögreglunnar. Meðal þess sem talið er auka tiltrú almennings á embættinu er að fólk upplifi að lögreglan beiti ekki meira valdi en þörf krefur. Verði misbrestur þar á er það talið geta grafið undan trausti til lögreglunnar, enda verði þau sem þurfa að fylgja fyrirmælum embættisins að upplifa lögregluna sem réttláta og lögmæta.

Þetta frumvarp miðar að því að tryggja að fyrirmæli lögreglunnar, sem getið er í 19. gr., byggist alltaf á lögmætum forsendum. Það er mat flutningsmanna að frumvarpið muni ekki einungis auka traust í garð lögreglunnar heldur jafnframt stuðla að aukinni réttarvernd almennra borgara. Við þurfum að tryggja að lagaregla sé fyrir hendi sem tryggir að það séu ávallt lagalegar forsendur fyrir fyrirmælum lögreglu.

Ein helstu fordæmi fyrir beitingu 19. gr. lögreglulaga gegn mótmælendum, eins og ég vísaði í hér áðan, má sjá í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. S-349/2010 og S-16/2011, en í þeim var sami einstaklingur tvisvar sakfelldur fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. Í báðum tilvikum hafði hann haft í frammi mótmæli fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík. Mótmælin fólust í því að hann stóð fyrir utan sendiráðið, nálægt inngangi þess en þó ekki þannig að af honum væri nein sérstök truflun. Raunar tóku starfsmenn sendiráðsins og lögreglan fram að þeim stafaði engin ógn af honum. Þegar hann neitaði að láta af mótmælunum og færa sig frá sendiráðinu var hann handtekinn og síðar sakfelldur fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. Í þessum málum mátti sjá að mótmælandinn truflaði ekki eða hafði áhrif á starfsemi sendiráðsins að neinu leyti en var sakfelldur þrátt fyrir það. Það verður að teljast skýr skerðing á réttinum til að mótmæla.

Virðulegi forseti. Það er í raun þetta sem við erum að koma til móts við með þessu frumvarpi, þ.e. að það fari alltaf fram þetta mat: Eru fyrirmæli lögreglu nauðsynleg? Eru þau í samræmi við meðalhófsregluna? Stafar einhver ógn af aðgerðum viðkomandi aðila eða ætti lögreglan mögulega bara að láta viðkomandi mótmælanda í friði í þetta sinn?

Í raun felur þetta frumvarp ekki í sér efnislega breytingu á því lagaumhverfi sem á að vera til staðar, en það á að árétta það mat sem á ávallt að fara fram og sem ekki hefur alltaf farið fram, hvort sem það er af hálfu lögreglu eða dómstóla, þ.e. að þegar til stendur að skerða mannréttindi borgaranna þá fari alltaf fram mat á því hvort sú skerðing eigi sér stoð í lögum, hvort sú skerðing sé minnsta mögulega inngrip í viðkomandi réttindi og völ er á og hvort sú skerðing sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta eru skuldbindingar sem við höfum gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögfestur hér á landi, en sömuleiðis höfum við auðvitað félagafrelsi og annað í stjórnarskránni. Í raun erum við bara árétta stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna og þau réttindi sem við höfum samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu til friðsamlegra mótmæla án afskipta lögreglu nema einhver sérstök brot séu yfirvofandi eða eitthvað annað slíkt sem þá aftur verður að lögmætum fyrirmælum lögreglu.

Þetta þýðir að áfram þarf að hlýða fyrirmælum lögreglu en það verður alltaf að leggja sérstakt mat á það hvort fyrirmæli lögreglu hafi verið lögmæt. Þetta tel ég að geti verið hvetjandi, bæði fyrir lögregluna og fyrir dómstóla, að standa betur vörð um stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna.