Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Þetta er í þriðja skipti sem ég legg fram þetta mál. Ég ætla ekki að fara að lesa greinargerðina sem er mjög löng og ítarleg en ég verð þó aðeins að koma inn á örfáa punkta.

Í greinargerðinni stendur m.a. að með frumvarpi þessu sé lagt til að löggjafinn veiti heimild með lögum til framkvæmda við hin nauðsynlegu flutningsvirki sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins, á grunni lögbundins undirbúningsferlis, í stað viðkomandi sveitarstjórna, að því leyti sem viðkomandi sveitarstjórnir hafa ekki þegar veitt framkvæmdaleyfi. Verði frumvarpið að lögum er um að ræða sérlög er ganga framar almennum lögum er kunna að varða útgáfu framkvæmdaleyfa og málsmeðferð þeirra innan stjórnsýslunnar.

Markmið framkvæmdarinnar við Suðurnesjalínu 2, sem frumvarp þetta nær til, er þríþætt: að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum, að auka flutningsgetu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja til að styðja við afhendingaröryggi á höfuðborgarsvæðinu, og að styrkja flutningskerfi raforku á suðvesturhorni landsins.

Forsendur framkvæmdaleyfis eru í samræmi við álit Skipulagsstofnunar. Niðurstaða Landsnets var að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 í samræmi við valkost C í áliti Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020, um mat á umhverfisáhrifum. Sú niðurstaða byggist á ítarlegri undirbúningsvinnu sem felur í sér valkostagreiningu, mat á umhverfisáhrifum, sérfræðiskýrslur, kostnaðargreiningu, samræmi við lög og reglur, stefnu stjórnvalda og samráð við hagaðila og landeigendur. Valkosturinn er einnig í samræmi við svæðisskipulag og skipulagsáætlanir allra sveitarfélaga á línuleiðinni.

Kostur C er loftlína sem fer um Hrauntungur og frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Sveitarfélagsins Voga liggur hún samhliða Suðurnesjalínu 1. Frá Njarðvíkurheiði að Rauðamel liggur línan samhliða Fitjalínu 1. Jarðstrengur er í báðum endum, þ.e. 1,4 km í Hafnarfirði en 0,2 km við Rauðamel. Lengd línu er alls um 33,9 km.

Frumvarpið er í samræmi við stefnu stjórnvalda. Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets, sbr. 9. gr. a í raforkulögum og reglugerð um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar er fjallað um fjárfestingar sem þarf að ráðast í á næstu þremur árum og tímaáætlun þeirra en samkvæmt 2. mgr. 9. gr. raforkulaga ber að tilkynna Orkustofnun um ný flutningsvirki áður en þau eru tekin í notkun og skal Orkustofnun hafa eftirlit með að slík framkvæmd sé í samræmi við framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

Suðurnesjalína 2 er á samþykktri þriggja ára framkvæmdaáætlun í kerfisáætlun 2018– 2027. Leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2 liggur því fyrir og um leið fyrir þeim fjármunum sem Landsneti er heimilt að nota í verkefnið. Fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 liggur að langmestu leyti utan svæða sem stefna stjórnvalda um lagningu raflína kveður á um að meta skuli bæði jarðstreng og loftlínu. Eina svæðið sem fellur undir framangreinda stefnu er innan þéttbýlismarka í Hafnarfirði.

Eitt af markmiðum landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026 er að tryggja örugga afhendingu raforku um leið og tekið er tillit til náttúru og landslags. Suðurnesjalína 2 fellur að stefnu svæðisskipulags Suðurnesja fyrir árin 2008–2024 sem gildir í sveitarfélögunum Vogum, Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ. Meginstefna svæðisskipulagsins er að nýta núverandi flutningsleiðir raforku og eru þær skilgreindar sem meginlagnabelti á Suðurnesjum, þ.e. Suðurnesjalínur, Reykjaneslínur og Svartsengislínur og gert ráð fyrir að fleiri línur geti byggst upp innan þeirra. Fyrirhuguð framkvæmd um Suðurnesjalínu 2, valkostur C, er í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2008–2028.

Ég ætla að láta þetta nægja úr greinargerð frumvarpsins. Ég ætla ekki að taka mjög mikinn tíma frá þinginu, hann er dýrmætur, en í stuttu máli þá var það svört skýrsla sem fram kom á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir u.þ.b. tíu dögum. Í henni fjallar fyrirtækið Reykjavík Economics um efnahagsleg áhrif Suðurnesjalínu 2. Víkurfréttir og fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um þessa skýrslu. Ég verð að segja að þrátt fyrir að maður telji sig þekkja nokkuð vel til á þessu svæði þá koma slíkar upplýsingar manni alltaf á óvart þegar dregin er upp sú mynd sem er að teiknast upp á Suðurnesjum ef þessi lína verður ekki að veruleika fljótlega.

Í skýrslunni kemur fram að náttúruleg fjölgun íbúa kallar á töluvert aukið orkuöryggi línunnar á svæðinu. Bara að teknu tilliti til íbúðarhúsnæðis, atvinnuhúsnæðis og orkuskipta þarf töluvert mikið rafmagn og viðbót á næstu árum. Vöxtur og viðgangur samfélagsins á Suðurnesjum er algerlega háður öryggi flutningskerfis raforku til Suðurnesja og tækifæri unga fólksins á Suðurnesjum inn í framtíðina verða tengd raforku í heimabyggð. Fjöldi verkefna á Suðurnesjum þarf á aukinni orku að halda inn á svæðið.

Það er magnað að meira að segja í því sveitarfélagi sem er að koma í veg fyrir það að þessi lína verði lögð er fyrirtækjum sem þangað eru að reyna að sækja tilkynnt að þau geta ekki fengið örugga orku, sem þýðir með öðrum orðum að þetta stingur þá mest sjálfa, þetta er að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði þar sem, eins og kemur fram í skýrslunni, er lökust afkoma sveitarfélags og hefur það minnst eftir upp í afborganir og skuldir af sveitarfélögunum öllum. Þannig að það vantar víða peninga og tækifæri fyrir unga fólkið og fyrir fyrirtæki til að skapa atvinnu á Suðurnesjum.

Það kemur fram í skýrslunni að forsvarsmenn atvinnulífsins á Suðurnesjum lýsa yfir miklum áhyggjum í viðtölum sem tekin voru við gerð skýrslunnar. Tafir á Suðurnesjalínu 2 setji vexti svæðisins skorður til framtíðar og fjárhagsleg velferð íbúa svæðisins til lengri tíma sé í mikilli hættu. Orkuþörf Suðurnesja í dag eru 140 MW en gangi áætlanir eftir mun orkuþörf stórnotenda og svæðisins alls vera orðin 230–300 MW árið 2030 eða eftir átta ár. Þar er ekki tekið tillit til metnaðarfullra áforma á Suðurnesjum um framleiðslu vetnis til útflutnings. Vegna óvissu um Suðurnesjalínu 2 hafa nokkrir aðilar ráðist í að byggja upp varaaflsstöðvar sem brenna dísilolíu. Það er sem sagt að gerast í dag á okkar vakt að fyrirtæki á Suðurnesjum eru að byggja upp varaafl í dísilstöðvum til að grípa inn í þegar orkan gefur sig eða berst ekki inn á svæðið, sem því miður hefur komið fyrir og allar líkur á því að það muni halda áfram að koma fyrir, verði ekkert að gert. Þannig eru bæði Isavia og Verne Global að byggja upp varaafl með dísilstöðvum sem kostar þessi fyrirtæki og stofnanir tugi eða hundruð milljóna, fyrir utan að þetta er í algerri andstöðu við allt það sem hér er sagt í þessu húsi og við öll stefnum að; að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í þessu landi. En það er enn að gerast að fyrirtæki þurfi að bjarga sér með því að byggja upp dísilrafstöðvar vegna þess að þingið ætlar ekki hafa dug í sér til að koma þessari framkvæmd af stað. Það er mjög mikilvægt að við klárum það mál sem fyrst.

Skýrsluhöfundar draga upp dökka mynd af minnkandi fólksfjölgun og fækkun fyrirtækja, jafnvel eru fyrirtæki sem vilja flytja hluta af starfseminni burt af svæðinu og jafnvel til útlanda eins og gagnaverin sem sjá tækifæri í Finnlandi og á öðrum norðlægum slóðum, þar sé ekki síður gott að vera og hafa þá raforkuöryggi, sem er náttúrlega lykillinn að gagnaverum.

Ég upplifði það, þegar var verið að fara yfir þessa hluti á þingi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, að Suðurnesin væru að verða eins og byggðirnar allt í kringum landið þar sem kvótinn hefur verið tekinn í burtu og það er ekkert við að vera. Hjá okkur suður frá er verið að ræna okkur orkuöryggi og tækifærum til framtíðar til að vinna og búa til tækifæri fyrir unga fólkið með aukinni orku með því að koma í veg fyrir það að Suðurnesjalína 2 verði sett upp. Það er hrikalegt að hugsa til þess að unga fólkið á Suðurnesjum þurfi kannski í náinni framtíð að fara að huga að því að búa annars staðar vegna þess að atvinnutækifærin verða ekki þar, vegna þess að við komum í veg fyrir það með því að byggja ekki Suðurnesjalínu 2. Það er alvarleikinn við þetta mál og það er ekki hægt, núna eftir að menn hafa staðið í 17 ár að ræða þessi mál, að segja það núna að það þurfi bara að setjast niður og tala saman. Það er allt samtal löngu búið. Það er allt löngu búið. Það er engin þolinmæði fyrir löngum fundum lengur. Nú þarf að fara að vinna og efna loforðið um raforkuöryggi og aukna orku inn á svæðið á Suðurnesjum.

Þingmenn verða að standa í lappirnar í þessu máli. Þeir verða að hafa þor til þess að taka á erfiðum málum. Það er ekki bara að mæta í kokteilboðin og hafa gaman af lífinu. Það er líka að taka á móti alvörunni þegar lífið er erfitt og standa í lappirnar. Þá reynir á úr hverju fólk sé gert og það hlaupi ekki út í horn og ætli ekki að vera með. Það eru 30.000 manns eða 95% af íbúum á Suðurnesjum sem bíða eftir þessari orku en innan við 5% koma í veg fyrir það. Ég er sannfærður um að flestir af þeim eru ekki sammála því að það eigi ekki að koma orka inn á svæðið. Það er ekkert auðvelt fyrir gamlan bæjarstjóra á Suðurnesjum að fara þessa leið, að taka valdið af sveitarfélaginu, skipulagsvald í einu máli. Það er ekkert grín, það er mjög erfitt. En það er bara til marks um það í hvaða farveg þetta mál er komið að við getum ekki annað. Við höfum enga aðra leið ef við ætlum ekki að halda áfram að byggja upp dísilrafstöðvar á Suðurnesjum til þess að halda lífinu þar gangandi. Landsnet hefur farið að öllum lögum. Veiting framkvæmdaleyfis Suðurnesjalínu 2 eru í höndum bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga og samkvæmt þeim niðurstöðum sem Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun og allir þeir aðilar sem hafa vélað um þetta mál hafa komist að, er aðeins eitt atriði eftir. Það er bara eitt mál eftir sem Sveitarfélagið Vogar á ekki að komast undan að framkvæma og það er að gefa út framkvæmdaleyfið en lopinn er teygður.

Virðulegur forseti. Skýrsla Reykjavík Economics er svört skýrsla um stöðuna á Suðurnesjum og það má ekki verða frekari dráttur á lagningu línunnar. Við getum ekki horft upp á þessa stöðu að við á Suðurnesjum lendum í þeirri ógæfu að missa atvinnutækifæri vegna þess að við fáum ekki raforku. Alþingi verður að grípa inn í og sýna af sér manndóm svo að hagsmunir Reyknesinga og Suðurnesjabúa víki ekki fyrir einstrengingslegri afstöðu 5% íbúanna. Við verðum að skera það fólk niður úr snörunni.