Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir þrautseigjuna og fyrir að halda áfram með þetta mikilvæga mál. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að það hafi ekki komist til meðferðar eða komist lengra í þau fyrri skipti sem það hefur verið lagt fram. Þegar maður les umsagnir frá fyrri þingum um málið þá sést mikilvægi þess — hér frá HS Veitum vorið 2021, með leyfi forseta:

„HS Veitur leggja mikla áherslu á að Suðurnesjalína 2 verði lögð sem allra fyrst. Afhendingaröryggi er mjög ábótavant og eins og staðan er í dag er ekki unnt að bæta við neinni notkun á svæðinu og hafa HS Veitur þurft að hafna tengingu á nokkrum millistórum notendum (10–30 MW) þar sem ekki er unnt að fá flutning á orkunni. Núverandi ástand er með öllu óviðunandi og þarf að laga sem allra fyrst.“

Sami tónn er sleginn í fleiri umsögnum, frá Kadeco, Landsneti, Orkustofnun, Samorku og fleirum. Það er alveg ótrúlegt að við séum föst í þessu hjólfari með þessa mikilvægu framkvæmd en það er þó ákveðin von í því að þetta er þingmál nr. 16, sem þýðir auðvitað að málið kemur snemma inn og maður skyldi ætla að þetta væri skilgreint sem eitt af forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins í þetta skiptið þannig að ég vona að það komist til atkvæðagreiðslu hér í sal, en það gæti orðið erfitt að ræða við einhverja samstarfsaðila í ríkisstjórninni. Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Friðriksson hvað hann telji að hafi raunverulega orsakað það að málið, jafn gott og skynsamlegt og það er, hafi ekki komist í gegnum þingið við fyrri framlagningar. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að við finnum leið til að klára það á þessu þingi og í þeim efnum mun ekki standa á þingflokki Miðflokksins.