Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:18]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Já, þetta eru staðreyndir sem komu fram í umsögnum sem blasa við og hafa því miður blasað við allt of lengi. Lengi framan af var töluvert meiri andstaða við þessa línulögn. En nú situr aðeins eitt sveitarfélag eftir og við höfum verið að gera okkur vonir um að hægt verði að berja í brestina og við náum saman um þetta, það skiptir miklu máli. Ég hef sagt við alla hlutaðeigandi í þessu máli að ef sátt næst við Sveitarfélagið Voga í þessu máli — það hefur verið reynt að ná sáttum og ég veit að það er í farvatninu að reyna að ná sáttum — þá verður það ekki neitt einasta vandamál fyrir mig að stíga til hliðar með þetta mál til að opna fyrir samkomulagi sem gert er við sveitarfélagið sem myndi tryggja að framkvæmdaleyfi verði gefið út. Það er ég búinn að segja ráðherrum og það hef ég sagt þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég held að ýmsar ástæður séu fyrir því að við náðum þessu ekki í vor. Það voru mikil vonbrigði fyrir mig að málið kláraðist ekki í vor og það fór ekki fram hjá neinum að ég var afar ósáttur við það. Nú er komið haust og eins og hv. þingmaður nefndi þá er þetta 16. mál okkar á dagskránni og ég ætla bara rétt að vona að það verði til þess að við náum að klára það. En kannski náum við samkomulagi áður og málið verður óþarft, sem er auðvitað það besta sem myndi gerast í þeirri stöðu sem uppi er.