Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:21]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ágætisspurning. Eins og hv. þingmaður veit og við þekkjum þá eru skiptar skoðanir um þessi mál í þinginu. Það er eðlilegt. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir þeim skoðunum, að fólki vilji fara varlega með náttúruna og ganga vel um hana. Það hef ég sagt hér í mörgum ræðum. Það hefur komið fram, m.a. hjá Landvernd ef ég man rétt, sem hefur mótmælt þessu og vill að jarðstrengur verði lagður í gegnum hraunið í vegöxl Reykjanesbrautar. Fólk talar um að það sé ekkert mál að plægja streng í öxlina á Reykjanesbraut en það er því miður ekki þannig. Þetta er gríðarlegt mannvirki sem þarf að leggja þarna og þess vegna er loftlína skásti kosturinn af þeim öllum sem bent er á og leið C er skásta leiðin. Ég segi það við þetta ágæta fólk sem hefur líka það prinsipp að vilja ekki taka valdið af sveitarfélaginu — það er líka mjög stórt mál að þingið standi frammi fyrir því að taka lögin af sveitarfélaginu eins og ég kom aðeins inn á í ræðu minni, það er náttúrulega mjög alvarlegt að þurfa að gera það — að í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi á Suðurnesjum, og í rauninni þessari litlu andstöðu í landmiklu sveitarfélagi, þá er það auðvitað ekki hægt að við í þinginu búum við þannig lög að hér geti örfáir aðilar, kannski bara fimm landeigendur, stoppað það að komið verði í veg fyrir að allt atvinnulíf, alþjóðlegur flugvöllur, höfn fyrir úthafsskip, verði orkuskorti að bráð. Það getur auðvitað aldrei gengið upp.