Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:25]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir þessa fyrirspurn. Auðvitað er fullt af fólki á Suðurnesjum sem hefur þá skoðun að þetta sé nokkuð harkaleg aðgerð en ég upplifi að þrátt fyrir það finnist fólki að sá tími sem þetta hefur verið svona sé orðinn allt of langur. Ætli það séu ekki svona tvö ár síðan að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hætti að styðja Voga í þessu máli vegna þess að þeir sáu að ekki var hægt að bíða lengur með þessa framkvæmd og hanga á þessu máli hjá einu sveitarfélagi. Auðvitað eru sveitarfélögin alltaf að ræða það sín á milli hvernig það má vera að eitt býli í sveitinni eða einn bóndi eða tveir landeigendur geti komið í veg fyrir vegalagnir, línulagnir eða mikilvæga innviði. Það er auðvitað okkar hlutverk hér að koma í veg fyrir að við þurfum að standa í svona málum á þingi og í landinu. Mikilvægir innviðir þurfa að vera á forræði ríkisins og ríkið á að geta lagt vegi, línur og flugvelli eins og best verður fyrir komið í sátt við sveitarfélögin en að þau geti ekki stöðvað þá hluti. Ég held að fyrirspurnin hjá hv. þingmanni hafi verið hvort fólk hafi ekki áhyggjur. Jú, fólk hefur áhyggjur en ég held að menn séu svolítið að gefast upp á því að sýna rósemi.