Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:29]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið hjá hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni. Ég hef bundið miklar vonir við þetta frumvarp og að ósekju hefði það mátt vera komið fram fyrir löngu síðan. Við erum alltaf að stíga skref inn í framtíðina og taka góðar ákvarðanir í þinginu — flestar alla vega, held ég. Þetta yrði mjög góða ákvörðun.

Ég hef sagt að ég er tilbúinn að bakka með þetta mál ef það verður samstarfsvilji. Ég reyndi og það er búið að reyna að fá ráðherrann til að mæta á fundi og það hafa verið þreifingar um það. Það hefur ekki tekist. Ég vildi ekki missa tækifæri til að flytja frumvarpið svona snemma því að annars hefði það allt dottið upp fyrir.

Ég hef sagt að myndist svigrúm til að ná sátt er ég auðvitað maður að meiri að taka málið til baka. En ég er svo hræddur við að ef ég hefði bara beðið þá værum við kannski enn og aftur að bæta við einu ári, tveimur árum. Það mun taka tíma að koma svona frumvarpi í gegnum þingið. Verði ekki mælt fyrir slíku frumvarpi á næsta ári mun það ekki verða tilbúið fyrir en 2024 eða jafnvel 2025. Tíminn er ótrúlega fljótur að fljúga hjá okkur í þinginu og erfiðu málin taka mjög langan tíma. Ég segi því: Förum bara rækilega yfir þetta mál núna og vonum að þetta sé síðasta málið sem við þurfum að taka svona, ef við þurfum að taka það. Við getum ekki misst lengri tíma á Suðurnesjum. Við getum bara ekki misst lengri tíma. Hann er svo dýrmætur fyrir framtíðina, hann er svo dýrmætur fyrir atvinnulífið, hann er svo dýrmætur fyrir flugvöllinn og alla ferðamannauppbygginguna. Það er varla hægt að hlaða bíla á Reykjanesi og á Keflavíkurflugvelli eru orkuskipti leigubíla óhugsandi eins og staðan er.