Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að koma fram með þetta mál og vekja máls á þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp varðandi raforkuöryggi og flutningskerfi raforku á Suðurnesjum. Ég vildi koma hingað upp og leggja áherslu á af hverju ég væri einn af meðflutningsmönnum á þessu máli og hvernig það horfir við mér. Það er alltaf talað um þetta eins og að við séum að taka skipulagsvald af Sveitarfélaginu Vogum, þetta snúist um skipulagsvald sveitarfélaga. Nú kom þetta mál hér fyrir ári síðan til þingsins og þá var ég líka meðflutningsmaður og það kom inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem fjallaði um málið. Við fengum til okkar gesti og fórum yfir málið og ef maður les líka það sem er kannski aðalgagnið í þessu máli, úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá því 4. október 2021, þá kemur alveg skýrt fram að gagnvart Vogum snýst þetta ekki um skipulagsvald heldur stjórnsýslu. Í svæðisskipulagi Suðurnesja er Suðurnesjalína 2 eins og hún er lögð til af Landsneti. Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga er Suðurnesjalína 2 eins og Landsnet óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir. Árið 2009 gaf Sveitarfélagið Vogar út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 þannig að þetta sveitarfélag, sem hér er verið að tala um að við séum að leggja til að taka skipulagsvaldið af er búið að setja Suðurnesjalínu 2 í allar sínar skipulagsáætlanir og veita framkvæmdaleyfi. Framkvæmdaleyfið var hins vegar kært af því að ekki hafði verið gerð umhverfismatsskýrsla um muninn á loftstreng og jarðstreng. Sú umhverfismatsskýrsla hefur verið gerð nú. Það er búið að fá leyfi hjá Orkustofnun, þetta er inni í öllum skipulagsáætlunum og þetta er búið að fara í gegnum úrskurðarnefndina aftur, sem segir að búið sé að undirbúa alla vinnuna. Þann 4. október 2021, það er ár síðan, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna framkvæmdaleyfi vegna skorts á rökum. Það voru engin rök fyrir því að neita Landsneti um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Það er staðan í málinu í dag. Það er ár síðan Sveitarfélagið Vogar fékk það verkefni að fjalla aftur um umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi eftir að úrskurðarnefndin felldi fyrri ákvörðun sveitarfélagsins úr gildi. Það er staða málsins í dag. En er einhver skipulagsvaldsvinkill á þessu? Já, það eru nefnilega önnur sveitarfélög á Suðurnesjum og á Reykjanesskaganum sem eru með skipulagsvaldið hjá sér. Það eru sveitarfélögin Hafnarfjörður, Grindavíkurbær og Reykjanesbær. Það eru miklir almannahagsmunir að aðalskipulag og svæðisskipulag þessara sveitarfélaga nái fram að ganga en eins og staðan er í dag, liðið ár frá því að úrskurðarnefndin felldi ákvörðunina um framkvæmdaleyfið úr gildi, hefur skipulag þessara þriggja sveitarfélaga sem ég taldi upp ekki náð fram að ganga. Sú atvinnuuppbygging og þróun byggðar sem gert er ráð fyrir í svæðisskipulagi Suðurnesja og í aðalskipulagi fyrrnefndra sveitarfélaga gerir ráð fyrir að rafmagn komi inn á svæðið. Þetta nær ekki fram að ganga. Þetta er meginástæðan fyrir því að ég tel það mál sem við fjöllum um hér nauðsynlegt, algerlega nauðsynlegt.

Hver er munurinn í þetta sinn, úr því að málið kláraðist ekki í vor, mun það klárast núna? Ég tel mikilvægt að fara aðeins yfir það. Við fjölluðum um málið síðastliðið vor en þá var ekki liðið eitt ár frá því að ákvörðunin var felld úr gildi með úrskurðinum, það var stutt til sveitarstjórnarkosninga og Landsnet, sem er stærsti hagsmunaaðilinn í þessu, mælti gegn því að frumvarpið næði fram að ganga af því að þeir vildu ekki skapa þetta fordæmi vegna annarra verkefna og það vildi gefa sveitarfélaginu ráðrúm til þess að endurskoða höfnun sína á framkvæmdaleyfinu og vildu leysa málið í þessum farvegi þar sem Landsnet var nokkuð sátt við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þessu var vísað aftur til sveitarfélagsins. Landsnet treysti á að sveitarfélagið myndi viðhafa góða og vandaða stjórnsýslu og afgreiða erindið innan eðlilegra tímamarka. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir, komin ný sveitarstjórn og enn er ekki búið að taka ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfið eða koma með ítarlegri rök fyrir því að hafna því. Það hefur ekki komið fram og tíminn líður og satt best að segja er ekkert sem bendir til þess enn að framkvæmdaleyfið sé á leiðinni. Því finnst mér vera kominn annar grundvöllur fyrir því að afgreiða málið núna en var þegar Landsnet lagðist gegn því. Það finnst mér vera svolítið augljóst. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum að vonandi leysist málið áður en Alþingi þurfi að stíga inn í, en að sjálfsögðu á Alþingi að sýna að það sé tilbúið að stíga inn í sé það nauðsynlegt.

Svo skulum við fara aðeins yfir þennan feril, um hvað verið er að tala hér og af hverju það er ekki bara einfalt að breyta þessu og fara með strenginn í jörð. Af hverju hlustum við ekki á þessa eðlilegu kröfu Sveitarfélagsins Voga um að setja hann í jörð? Það hefur margoft komið skýrt fram undanfarna mánuði að það eru vissar jarðfræðilegar ástæður fyrir því að það er ekki hægt, þ.e. að á meðan tilfærsla í jarðlögum sé yfir 10 sentímetrar geti jarðstrengur ekki legið þar. Á því svæði sem hinn fyrirhugaði jarðstrengur átti að liggja í vegstæði Reykjanesbrautar eða þar fyrir ofan er þessi tilfærsla meiri. Það getur vel verið að hægt sé að fara niður fyrir Reykjanesbrautina og leggja strenginn þar í jörð og fá þá ekki þessa tilfærslu. En þá þurfum við að hefja hinn 20 ára feril upp á nýtt, fá leyfi hjá Orkustofnun um að setja strenginn í jörð og þá þarf Orkustofnun að meta það hvað það kostar fyrir flutningskerfi raforku á landsvísu, hvaða orkuöryggi er í því og hvort náttúruvá er líka þar. Þetta er allt kæranlegt. Þá þurfa öll fjögur sveitarfélögin að breyta sínum skipulagsáætlunum, það er allt kæranlegt og tekur tíma. Áður en þessi ferill nær fram að ganga eru Suðurnesin orðin rafmagnslaus af því að þau eru rafmagnslaus í dag. Þau eru rafmagnslaus í dag. Þarna er bara augljóst að það er ekki annar valkostur. Það er líka annað sem þarf að skoða við að setja þetta upp, það eru aðrir tæknilegir annmarkar upp á dreifikerfið í heild sinni þannig að allar þær ákvarðanir sem við tökum þarna, bæði um verð og orkuöryggi og orkunýtni, hafa áhrif á allt flutningskerfið, ekki bara á Suðurnes, svo að það sé sagt. Öll gögn í þessu máli sýna að Landsnet hefur farið hagkvæmustu, öruggustu og skynsamlegustu leiðina og umhverfismatsskýrslur og álit Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar sýna að þetta sé líka best fyrir náttúruna og annað slíkt.

Ég hef aðeins heyrt í umræðunni og ég hef heyrt ákall frá heimamönnum í Vogum sem mér finnst vert að hlusta á að þarna séum við að tala um grunninnviði, þ.e. rafmagn, en þeir hafi ekki aðgengi að grunninnviðum sem er heitt vatn. Ég tel ekki ástæðu til að tengja þetta tvennt saman en ég lýsi mig algerlega reiðubúinn til að aðstoða við að lagt verði heitt vatn á Vatnsleysuströnd. Það eru vissir ferlar til hjá stjórnvöldum til að styðja við slíka uppbyggingu og við eigum bara að horfa sjálfstætt á það mál, að það sé vilji okkar að sem flestir hafa aðgengi að hitaveitu ef það er hægt. En það á ekki að tengja þetta stóra mál við það. Ég vil bara ítreka að skipulagsvald og skipulagsáætlanir sveitarfélaganna Hafnarfjarðar, Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar ná ekki fram að ganga út af því að eitt sveitarfélag veitir ekki framkvæmdaleyfi en er með þetta allt inni á sínum skipulagsáætlunum. Ég sé enga aðra lausn en að veitt sé framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 eins og hún er. Annað tekur of langan tíma og það er bara jarðfræðilega ómögulegt að fara aðra leið út af náttúruvá, út af misgengi, út af röskun á hraunmyndunum og líka öðrum tæknilegum þáttum. Því er ég stuðningsmaður þessa máls og vona að lausn fáist sem fyrst í þetta mál og lausnin finnist hraðar en þingleg meðferð málsins tekur.