Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Stríð Rússa gegn Úkraínu hefur gjörbreytt stöðu heimsmála. Innrásin er fyrst og fremst árás á saklausan almenning í Úkraínu og daglegt líf fólks, en ekki síður er þessi innrás árás á lýðræðið sjálft, sjálfstæði ríkja og fullveldi þeirra. Breyttar aðstæður kalla á stóraukið samstarf vestrænna lýðræðisríkja og þar er Ísland síður en svo undanskilið. Þess vegna vil ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra taki þetta samtal við okkur hér í dag. Nú er einmitt mikilvægt að við horfum fram í tímann og metum stöðu Íslands í nýju ljósi, spyrjum okkur hvað megi bæta og hvað þurfi að gera, rétt eins og nágrannaríkin hafa gert í kjölfar innrásarinnar.

Viðbrögð þeirra hafa verið bæði skýr og sterk, ekki síst hjá frændum okkar í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, eins og raunar víðar um Evrópu. Aukið samstarf hefur verið meginstefið. Það er alveg ljóst að aðgerðir Íslands í öryggis- og varnarmálum verða að taka mið af breyttri heimsmynd og nýjum ógnum vestrænna lýðræðisþjóða. Í þessu felst m.a. virkara samstarf í gegnum tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og aukin þátttaka okkar í borgaralegum verkefnum NATO. Nú þegar önnur ríki leggja meira til varnarsamstarfsins er mikilvægt að Ísland leggi sitt af mörkum með ríkari hætti en áður. Í ljósi sameiginlegrar yfirlýsingar Norðurlandaríkjanna þann 15. ágúst sl. er líka rétt að spyrja hvernig ríkisstjórn Íslands ætli sér að styrkja og þróa NATO sem bandalag, eins og fram kom í yfirlýsingunni. Þetta kom líka fram á leiðtogafundinum í Madríd fyrr í sumar.

Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að Ísland láti til sín taka af meiri krafti á vettvangi bandalagsins? Einnig þarf að gera varnarsamstarf við Bandaríkin virkara, tryggja m.a. að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti á netárásum og tryggi órofið samband Íslands við umheiminn á sviði flutninga, orkuöryggis og fjarskipta, svo dæmi séu nefnd. Við megum heldur ekki gleyma því að Rússar hafa reglulega verið að kortleggja sæstrengina hér við landið. Í ágúst á síðasta ári voru rússnesk herskip hér í efnahagslögsögunni. Nú þegar Ísland er skilgreint sem óvinveitt ríki í þeirra augum, ekki síst í ljósi þess að spennan á norðurslóðum fer vaxandi, þarf að fá á hreint hvort fjarskiptaöryggi okkar og samskipti við umheiminn séu nægilega tryggð. Nú hefur enn ríkari ástæða skapast til þess, m.a. eftir skemmdirnar á Nord Stream-gasleiðslunni í Eystrasaltinu.

Ég vil einnig spyrja hvernig ríkisstjórnin ætli sér að tryggja að skuldbindingar um þyrluþjónustu vegna loftrýmisgæslu og annarrar yfirlýstrar aðstoðar séu fyllilega uppfylltar til frambúðar. Að vera með einu eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar mánuðum saman í Miðjarðarhafinu er ekki forgangsröðun í þágu öryggis og varnar okkar Íslendinga, þ.e. ef við ætlum okkur yfir höfuð að uppfylla skuldbindingar okkar. Yfirsýn okkar um skipaumferð í okkar víðfeðmu lögsögu verður lítil vegna þessa og það vita allir.

Ég vil líka spyrja hvernig ríkisstjórnin hyggist afla sérfræðiþekkingar á sviði varnarmála ef við horfum til þess starfsmannaskorts sem hefur ríkt í áraraðir þegar kemur að varnar- og öryggismálum. Hvernig á að bæta það? Þá er líka mikilvægt að fyrir liggi skýr ákvæði um verkferla, ábyrgð og ákvarðanatöku ef til þess kæmi að virkja þurfi varnaraðstoð, t.d. Bandaríkjanna eða NATO-ríkjanna. Þegar mikið liggur við þarf ákvarðanatakan að vera skýr. Telur ríkisstjórnin þörf á að tryggja skýrari stefnumótun og skilvirkari stjórnsýslu er varðar verkaskiptingu, ábyrgð og ákvarðanatöku í öryggis- og varnarmálum? Stjórnsýslan þarf að fá þetta á hreint. Það skiptir öllu máli svo ákvarðanir okkar geti verið skilvirkar og sterkar þegar á reynir, og þegar staðan í öryggismálum er eins og hún er þessa dagana. Í þessum efnum dugar ekki að vera vitur eftir á og um nákvæmlega þetta snúast m.a. spurningar mínar til ráðherra.

Í þessu samhengi er forvitnilegt að vita hvort forsætisráðherra sé enn þeirrar skoðunar að ný stefna NATO í öryggis- og varnarmálum snúi ekki að norðurslóðum, því að margt bendir til að þar fari fyrirferð Kínverja og Rússa sífellt vaxandi. Er forsætisráðherra enn þeirrar skoðunar? Höfum líka í huga að herlaust smáríki eins og Ísland er algerlega undir öðrum komið í öryggis- og varnarmálum og þá er mikilvægt að landið sé tryggt bæði með belti og axlaböndum.

Í ljósi ummæla forsætisráðherrans um að ekki verði óskað eftir fastri viðveru varnarliðs hér á landi vil ég því spyrja: Hvernig hyggst ríkisstjórnin styrkja varnir landsins að öðru leyti? Að hvaða leyti hafa gjörbreyttar aðstæður áhrif á endurmat ríkisstjórnarinnar er varðar varnarstöðu og varnarsamstarf landsins og er alger einhugur innan ríkisstjórnarinnar um að skoða ekki viðveru varnarliðs hér á landi til frambúðar?