Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt sem málshefjandi segir að innrás Rússa í Úkraínu hefur kallað á endurmat ýmissa vestrænna ríkja á öryggis- og varnarmálum, t.d. hafa Danir samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að falla frá öllum fyrirvörum sínum gagnvart varnarstefnu Evrópusambandsins. En þessi innrás kallar hins vegar ekki á allsherjarendurmat á stefnu okkar Íslendinga í þessum málum sem hefur verið samþykkt hér á Alþingi sem þjóðaröryggisstefna okkar. Hún grundvallast á veru okkar í NATO og þátttöku í varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Þvert á móti held ég að þessir atburðir hafi orðið til þess að styrkja þessa stefnu og samstöðu flestra flokka um hana, hvað sem svo kann að líða orðum í stefnuskrá. Stuðningur landsmanna við aðild að NATO hefur aukist mikið eftir þessa innrás og það fer ekki milli mála að Íslendingar telja sig upp til hópa eiga samleið með vestrænum lýðræðisþjóðum í Evrópu. Slíkt alþjóðasamstarf snýst um gagnkvæmar skuldbindingar, gagnkvæma virðingu og byggist á sameiginlegu gildismati; virðingu fyrir lýðræðislegum leikreglum, frjálsum fjölmiðlum og frjálsri umræðu og mannréttindum. Í því samhengi tel ég raunar að hagsmunum okkar sé langbest borgið í enn þéttara samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. En það er hins vegar fagnaðarefni fyrir okkur Íslendinga að nánar vinaþjóðir, Svíar og Finnar, séu væntanlega á leið inn í NATO og við verðum að vona að það auki enn áherslu á mannréttindi og lýðræði og að meðvitund aukist einnig á vettvangi NATO um mikilvægi félagslegs jöfnuðar til að koma á friði á átakasvæðum.

Herra forseti. Við erum vopnlaus þjóð og þannig viljum við líka hafa það áfram. En þar með er ekki sagt að við höfum ekki sitthvað fram að færa á sviði NATO, t.d. ýmis borgaraleg uppbyggingarverkefni sem eru til þess fallin að stuðla að friðsamlegri tilveru og betra lífi fyrir okkur öll.