Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það hefur verið viðloðandi hve lítil umræða er hér á þingi og yfir höfuð á hinum pólitíska vettvangi um utanríkismál. Kannski hefur feimnin um kosti ESB-aðildar gert það að verkum að myndast hefur hvati til að ræða utanríkismál yfir höfuð eins lítið og kostur er. Kannski er ástæðan einhver önnur, kannski er það værukærð lítillar þjóðar hér úti í ballarhafi. En sú staðreynd ætti auðvitað að kalla á að við gerðum utanríkismálum sérstaklega hátt undir höfði í pólitískri umræðu. Kannski verða breytingar á. Í kjölfar mikilmennskubrjálæðis Pútíns Rússlandsforseta og innrásar í Úkraínu hefur umræðan um varnar- og öryggismál verið fyrirferðarmikil í öllu alþjóðlegu samstarfi. Norðurlandaráð er sannarlega engin undantekning þar. Ég sit t.d. í starfshóps ráðsins um mótun nýrrar alþjóðastefnu og þar er áherslan á mun pólitískari stefnumótun en áður, m.a. og ekki síst einmitt með tilliti til öryggis- og varnarmála. Það er líka áhugavert hvernig umræðan hefur þróast í Norðurlandaráði eftir að Svíar og Finnar ákváðu að sækja um aðild að NATO. Jafnvægið hefur breyst, það finna allir, og algerlega burt séð frá skoðunum okkar og afstöðu til Evrópusambandsaðildar eða þess hvort íslenskri þjóð sé treystandi til að hafa skoðun á því eða að taka afstöðu til þá er ljóst að við verðum að taka tillit til þessarar breyttu stöðu. Við þurfum að gera mati á varnarsamstarfi og varnarstöðu okkar hátt undir höfði. Það er þess vegna sem ég fagna þessari umræðu, þeim sjónarmiðum sem koma fram hér, þeim áhuga sem Alþingi sýnir og því frumkvæði sem frummælandi hér, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Viðreisn, hefur sýnt frá því löngu fyrir innrásina í Úkraínu, frumkvæði við að vekja og viðhalda áhuga á öryggis- og varnarmálum Íslands í pólitískri stefnumótun og pólitískri umræðu hér á þingi.