Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:31]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Við lifum í mikið breyttum heimi sem þó hefur haft nokkurn aðdraganda. Við því höfum við verið að bregðast og verðum að gera áfram af krafti í mörgum grundvallaratriðum, bæði sem fullvalda þjóð á okkar forsendum, á grundvelli okkar sérstöðu sem vopnlausrar þjóðar og eyríkis í Norður-Atlantshafi en ekki síður í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar og þær þjóðir sem deila með okkur grunngildum og sýn á samfélag þjóðanna, standa vörð um mannréttindi, lýðræði og dómskerfið. Hlutverk þessara stoða hefur vart nokkru sinni verið mikilvægara. Hér þurfa ekki síst þjóðir Evrópu að vinna vel saman að því að skapa eigin farsæla framtíð fyrir álfuna en einnig horfa fram á veginn með öðrum þjóðum heimsins og takast á við ógnir gegn heimsfriði, vinna að aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og verja líf og afkomu fólks með verndun vistkerfa heimsins. Það verður að treysta samstöðuna gegn aðsteðjandi ógnunum. Íslensk stjórnvöld eru að bregðast við alvarlegum afleiðingum innrásarinnar í Úkraínu af einurð með samfélagi þjóðanna með aðgerðum, með viðskiptaþvingunum og ekki síst mannúðaraðstoð. Áframhaldandi samhugur og samstaða vegna þessa hræðilega stríðs skiptir miklu máli. Við eigum að bregðast við nýjum veruleika af yfirvegun, stillingu og umfram allt festu með hagsmuni lands og þjóðar forgrunni. Það gerum við best í samstarfi við þær þjóðir og þau lönd sem standa okkur næst, vinaþjóðir. Tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna stendur á traustum grunni. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu þar sem rödd Norðurlandaþjóða mun verða sterkari á næstu árum, þær eru um leið okkar helstu vinaþjóðir sem við eigum mikla samleið með og hafa umfram aðrar talað fyrir friðsamlegum lausnum deilumála. Við erum að treysta varnir okkar og viðbúnað vegna nýrra ógna. Fjölþáttaógnir, netöryggi, mögulegar árásir á grunninnviði, að grunninnviðir standi sem best af sér náttúruhamfarir, slys og umhverfisslys jafnvel af mannavöldum eða hryðjuverk af því tagi, fæðuöryggi og grunnviðbúnaður eins og olíubirgðir í landinu og aðrir lykilþættir aðfangakeðju sem halda grunninnviðum gangandi á átaka- eða hamfaratímum.