Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

búvörulög.

120. mál
[13:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni. Nú þarf ég að tala hratt. Það er rétt, þetta er ekki breyting á samkeppnislögum en breyting á ákvæðum samkeppnislaga, ég var bara að reyna að spara orð og sekúndur í minni nálgun. En það er rétt, höfum það á hreinu. Betri leið, spyr hv. þingmaður. Ég get bent á ýmsar en ég get líka fullyrt að mér þykir þetta vera versta leiðin. Á þingmálaskrá hæstv. matvælaráðherra er líka talað um framtíðarstefnumótun í matvælaframleiðslu. Ég tel mjög brýnt t.d. að þar förum við Íslendingar í sömu átt og flestar aðrar þjóðir, að við íhugum að styrkjakerfið okkar sé ekki jafn bundið við kjötframleiðslu og það er nú. Ég tel reyndar að þessi tiltekna tillaga sé, sem og boðað mál ráðherra, viðleitni í þá átt að halda okkur í þeim föstu skorðum frekar en að horfa til framtíðar með aðra nálgun í landbúnaði. Hef ég betri leið til að viðhalda kjötframleiðslunni í sömu stöðu og hún er í dag og bændum í sömu stöðu? Nei, ég tel þetta mál sem hv. þingmaður leggur til hér leiðina til þess. Það er bara ekki leiðin sem ég tel að við eigum að fara með matvælaframleiðsluna okkar og þar liggur kannski ágreiningurinn.