Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

búvörulög.

120. mál
[14:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ekkert flókið. Ef þeir sem þrýsta svona mikið á að leyfa þessa miklu samvinnu fá þrýst á þessa undanþágu frá samkeppnislögum sem ég er á móti — ef þeir vilja hana, af hverju er ekki hægt að gera það á grunni samkeppnislaga? Af hverju er ekki hægt að sýna fram á að þessi samvinna sem er svo nauðsynleg að þeirra mati, og ég ætla ekkert að draga það í efa, sé svona mikilvæg? Af hverju er ekki hægt að sýna það svart á hvítu að það samstarf sé í þágu bænda og neytenda? Ég veit að hv. þingmaður þekkir samruna Kjarnafæðis og Norðlenska mjög vel. Ég hef átt samtöl við bændur fyrir norðan sem drógu fram að þeir hafi verið mjög smeykir við þann samruna. Það var m.a. dregið fram af hálfu Samkeppniseftirlitsins að fyrirtækið sameinað þyrfti að skuldbinda sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur myndu færa viðskipti sín frá fyrirtækinu og jafnvel til keppinauta þess. Jafnframt var tryggður réttur bænda til að semja um afmarkaða þjónustu við sameinað fyrirtæki, svo sem um slátrun eða aðra þjónustu við þriðja aðila, svo sem vinnslu. Með því að draga Samkeppniseftirlitið þarna inn styrkti það stöðu bænda við samruna.

Ég óttast að með því að koma með undanþágu, beinharða, klára undanþágu, inn í búvörulögin til að sniðganga samkeppnislög verði staða bænda ekki betri heldur verri en hún er núna hvað þetta varðar. Ég geld varhuga við þessu máli, ekki bara fyrir hönd neytenda heldur líka fyrir hönd bænda.