Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

framlög til menningarmála.

[15:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki síst út af listamönnum og verkum þeirra sem Ísland er þekkt á alþjóðavísu sem skilar sér í beinhörðum peningum, t.d. af ferðamönnum. Þetta er aðeins dæmi um hinn beina ávinning sem við höfum af listum og þá er ógetið um mikilvægi lista fyrir samfélagið almennt. Við skulum líka muna að Covid-tímarnir voru listafólki sérlega erfiðir af þeirri einföldu ástæðu að þeir komust ekki til að stunda list sína eða lifa af henni.

Í umsögn Bandalags íslenskra listamanna við fjárlög kemur fram að stórfelld lækkun sé fyrir dyrum á listamannalaunum og þau þyrftu að hækka í 560.000 kr. til þess að halda í við launavísitölu og vera sambærileg við það sem sjóðirnir höfðu til ráðstöfunar árið 2021. Listamenn hafa líka reiknað út að sjóðirnir nú séu sambærilegir því sem þeir voru 2014 þegar Ísland var nýstigið upp úr fordæmalausu efnahagshruni. Bandalagið bendir einnig á 30% skerðingu á framlögum til Kvikmyndasjóðs. Endurgreiðslur vegna stærri verkefna verða hins vegar auknar en þær renna að mestu leyti til erlendra framleiðenda. Listamenn vilja fá að sjá eyrnamerkta þjóðaróperu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og loks spyrja þeir út í útgjaldalið upp á 1,2 milljarða sem hækkar um 10% milli ára, en eins og Bandalagið segir þá er þetta andlitslaust ráðstöfunarfé menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Bandalagið fer fram á skýringar á þessum liðum.

Herra forseti. Ég vil gera spurningar og athugasemdir Bandalagsins að mínum og beina þeim til hæstv. ráðherra menninga og viðskipta.