Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

framlög til menningarmála.

[15:14]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð spurning og ábending sem kemur frá bandalaginu en þetta er í fyrsta sinn sem ég sé hana. Við höfum átt fjölmarga fundi með forseta bandalagsins og aldrei nokkurn tímann, aldrei hefur hann minnst á þetta, að þetta sé andlitslaust skúffufé. Og ég kannast ekki við það því að ég er ekki búin að vera með neitt skúffufé allt síðasta ár. Ég bara vísa þessu algerlega heim til föðurhúsanna ef ég á að segja eins og er. Ég vil benda á að þarna er um að ræða sjóði og allt eyrnamerkt ákveðnum málaflokkum og allt hjá nefndum sem við höfum skipað, þannig að hér er ekki um að ræða eitthvert andlitslaust skúffufé.

Varðandi listamannalaunin er það svo að í lok síðasta kjörtímabils hækkuðum við listamannalaunin um 100 milljónir. Að auki erum við að halda þessari hækkun inni um sirka 70 milljónir út kjörtímabilið. En það er alveg rétt, sem kemur fram í umsögn Bandalags íslenskra listamanna, að þessi laun mættu hækka. Það er mín skoðun og þar erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála.