Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

orkuþörf og loftslagsmarkmið.

[15:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að virkjunar-, loftslags- og landverndarmálin eru fyrirferðarmikil í opinberri umræðu. Það þarf heldur ekki að eyða löngum tíma í að nefna að þótt stjórnarflokkarnir þrír hafi komið sér saman um texta til að setja í stjórnarsáttmála er vegalengdin á milli þeirra svo löng að hún verður best mæld í ljósárum. Það er út af fyrir sig eðlilegt, það er bara pólitík og skoðanamunur, en í veruleikanum verður það hins vegar til þess að erfitt er að átta sig á því hvernig ríkisstjórnin ætlar að uppfylla orkuþörf og loftslagsmarkmið því að menn tala í austur og vestur hver úr sínu sólkerfinu.

Gleggsta dæmið um það er umræðan sem skapast hefur um grænbók um orkumál. Skemmst er að minnast áhugaverðrar ræðu sem þingflokksformaður VG, hv. þm. Orri Páll Jóhannsson, hélt hér í þinginu en þar gagnrýndi hann formann starfshópsins, Vilhjálm Egilsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem vann téða grænbók fyrir ríkisstjórnina, fyrir að tala fyrir öfgafyllstu sviðsmyndinni til orkuöflunar. Í Kjarnanum má svo lesa áhugaverða frásögn af fundi sem haldinn var um vindorku á Vesturlandi á dögunum. Þar tók til máls þingflokksformaður VG, Orri Páll Jóhannsson, og ég vitna til þeirra orða sem höfð voru eftir þingflokksformanninum á þeim fundi. Hann sagði að ræða þyrfti hvort einhver hluti þeirrar orku sem aflað sé í dag og ráðstafað til stóriðju geti hugsanlega farið í það sem þurfi í almannaþágu til að mæta fólksfjölgun og orkuskiptum. Þetta er umræða sem við höfum ekki tekið og er ekki tekin fyrir í þessari skýrslu, sagði Orri og veifaði grænbók Vilhjálms Egilssonar. Með öðrum orðum: Áhrifamenn eins stjórnarflokksins telja koma til álita að annaðhvort loka stóriðjuveri til að losa um orku til orkuskipta eða segja upp orkusamningi og kallar eftir umræðu.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra Bjarna Benediktsson, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í ríkisstjórninni, hvort honum finnist þetta koma til greina, hvort þetta sé yfir höfuð raunhæft og hvort verið sé að ræða þennan möguleika á milli ríkisstjórnarflokkanna.