Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

orkuþörf og loftslagsmarkmið.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé allt of djúpt í árinni tekið að segja að flokkarnir tali út og suður þó að menn leyfi sér að viðra þá skoðun í opinberri umræðu að þeir myndu vilja sjá hærra hlutfall af orkunni sem við eigum til staðar nú þegar renna annað en í stóriðjuna. Það er jú staðreynd að orkufrekur iðnaður tekur í kringum 80% af allri framleiddri orku í landinu. En það er ekki mín skoðun að þessi mál verði leyst varðandi orkuskiptin með því að draga úr því heldur þurfum við að framleiða meira. Við þurfum að spyrja okkur spurninga sem snúa að flutningskerfinu. Við sjáum það t.d. núna í um þessar mundir að Landsvirkjun er með áform um að reisa virkjun í Þjórsá og hefur umsókn um það til meðferðar hjá Orkustofnun og ég veit ekki betur en að sú umsókn hafi verið í meðferð frá júní 2021. Ef okkur liggur á að nýta þá hagkvæmu virkjunarkosti sem eru til staðar í landinu þá þurfum við líka að gá að því að stjórnkerfi okkar geti afgreitt hugmyndir innan einhverra skynsamlegra marka vegna þess að þetta er bara einn áfangi af mörgum sem þarf að klára til þess að þar verði hafin framleiðsla innan tíðar.