Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

staðan á landamærunum.

[15:38]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Undanfarið höfum við töluvert rætt um stöðuna á landamærum og flóttamenn. Þann 16. september hækkaði ríkislögreglustjóri viðbúnaðarstig á landamærum eins og við þekkjum flest hér inni. Búsetuúrræði til skamms og lengri tíma voru þá orðin fullnýtt og áætlaði ríkislögreglustjóri að umsækjendum ætti eftir að fjölga hlutfallslega. Í kjölfarið kom fram að í Hafnarfirði hefði verið gerður samningur um samræmda móttöku flóttamanna sem gerði þá ráð fyrir tveimur starfsmönnum. Á liðnum misserum hefur þurft að fjölga þessum starfsmönnum og eru þeir orðnir 16 talsins. Innviðirnir eru komnir að þolmörkum. Við sjáum ekki annað en ákveðið stefnuleysi hjá stjórnvöldum og hefur það verið ríkjandi í málaflokknum dálítið lengi. Í tveimur þáttum um helgina voru þessi mál til umræðu. Á Sprengisandi var borin upp spurning til þingmanns Sjálfstæðisflokksins um hvort landamærin væru of opin. Hv. þingmaður svaraði því neitandi. Því verð ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé samstaða innan þingflokks? Hvað sér ráðherrann fyrir sér til framtíðar í málaflokknum ef ósamstaða er ekki bara innan ríkisstjórnarinnar heldur einnig innan eigin þingflokks?