Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Margar ákvarðanir Alþingis eða stofnana samfélagsins virðast ekki alltaf hugsaðar til enda. Lög og reglur eru settar án þess að hirt sé um hvaða afleiðingar það hafi á þá sem starfa undir götóttum reglugerðarhimni þeirra sem ekki sjá málin í samhengi hlutanna. Frá og með næstu áramótum verður bannað að urða lífrænan úrgang og dýrahræ. Þá verður ekki hægt að fara með dýrahræ til förgunar, til að mynda í starfsstöð Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholti. Frá næstu áramótum þurfa sveitarfélögin því að huga að nýju kerfi við að fjarlægja dýraleifar og koma þeim í förgun.

Þarna vandast málin. Í dag er það einungis móttöku- og brennslustöðin Kalka í Helguvík á Reykjanesi sem getur tekið á móti hræjum til brennslu. Kalka er ekki í alfaraleið fyrir bændur sem þurfa að koma dýrahræjum í brennslu og búa allt í kringum landið. Ef við tökum sem dæmi eru akstursleiðir frá Búðardal í Fíflholt um 80 km leið, frá Búðardal í Kölku eru um 220 km og 650 km eru austur á Hérað, sem gefur vísbendingu um kostnaðarhækkun ef brenna þarf dýrahræ fyrir allt landið í Kölku. Það lítur út fyrir að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir í loftslagsmálum þegar lengja þarf akstursleiðir bifreiða, sem drifnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti, um allt að 140–600 km í hverri ferð, aðra leiðina, en ferðirnar skipta hundruðum á ári.

Nú virðast engar lausnir í sjónmáli og skammur tími er til stefnu. Á höfuðborgarsvæðinu einu saman falla til 7.000 tonn á ári af lífrænum úrgangi sem lítt hefur verið hugað að hvernig megi farga. Það þarf því að kanna allar mögulegar lausnir áður en farið er út í kostnaðarauka fyrir bændur og þá sem eiga hesta og dýr í útigöngu.

Virðulegur forseti. Munu bændur þurfa að búa við þjónustuskerðingu vegna þess að málin eru ekki hugsuð til enda og örugg förgun dýrahræja ekki í boði? Eru sveitarfélögin og við, sem berum ábyrgð á lögum og reglugerðum um þessi mál, með lausnir sem taka tillit til kostnaðar við förgun og minni losun gróðurhúsalofttegunda við flutninginn?