Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það stendur yfir bylting í Íran, bylting leidd af ungum vopnlausum og valdalausum stúlkum sem segja nei við áratugalangri kúgun, sem hætta lífinu við það að krefjast frelsis. Þetta er líka bylting ungra manna og eldra fólks sem hefur sömu markmið og sömu sýn á það hvernig lífið á að vera. Þetta eru sömu markmið og sama sýn og við höfum. Þetta er ekki okkar barátta en hún ætti að vera það. Stríð í Evrópu, landfræðilega nálægt okkur, í okkar menningarheimi, snertir okkur eðlilega djúpt, vekur ótta og við viljum aðstoða bræður okkar og systur, nágrannana sem við tengjum við, sem eru Evrópubúar eins og við. Þó að Íran sér landfræðilega og menningarlega fjarlægt okkur, þó svo að við lítum bara til eiginhagsmuna, eru samt ótal ástæður fyrir okkur til að grípa þar inn í eftir bestu getu, nánar tiltekið um 380.000 ástæður, ein fyrir hvern íbúa Íslands. Ungu vopnlausu stúlkurnar í Íran og það hugrakka fólk sem mótmælir með þeim er að berjast fyrir gildunum okkar, fyrir frelsi, fyrir mannréttindum og fyrir lýðræði. Þau eru að hætta lífi sínu í baráttu fyrir heimsmyndinni sem við viljum vernda.

Herra forseti. Kannski ætti ung, hugrökk írönsk stúlka, ein byltingarleiðtoganna í Íran, að vera næst til að ávarpa Alþingi hér í þessum sal, setja okkur inn í málið, setja fram óskir um aðstoð, mála tvær framtíðarsýnir, eina þar sem byltingin þeirra er brotin niður og aðra þar sem frelsið sigrar, þar sem baráttan fyrir okkar gildum sigrar.

Erum við ekki alltaf í liðinu með frelsinu og þurfum við þá ekki að gera betur, gera eitthvað hér til að aðstoða við þessa baráttu líka?