Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[15:28]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta reddast. Sem betur fer var hæstv. forsætisráðherra ekki að koma hingað upp til að segja okkur það eitt að þetta reddist. En það hefur því miður allt of lengi verið það sem við hér á Íslandi segjum þegar kemur að því að höndla krísur. Við vonum að það reddist. Það er svo sannarlega ánægjulegt að verið sé að skoða hluti eins og birgðastöðu og ýmislegt annað, þó svo að ég hefði gjarnan viljað sjá þessa skýrslu ganga enn lengra. Það er von mín að það sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan, um að hvert og eitt ráðuneyti ætli að halda áfram vinnunni, verði gert og að við fáum að vita um slíka hluti hér á Alþingi.

Það er ekki nóg að búið sé að skrifa fallega skýrslu með fallegri mynd framan á. Við þurfum að skoða þær tillögur sem nefndin sem setti skýrsluna saman er með. Við þurfum að ræða þær tillögur og við þurfum að framkvæma þær. Við þurfum að kafa dýpra á mjög mörgum stöðum þar sem kannski var ekki farið nógu langt niður. Við þurfum að byggja upp viðbragðsáætlanir, ekki eftir að hlutirnir gerast heldur áður. Mig langaði líka að byrja að nefna eitt sem kom fram í skýrslunni og það er hver ætti að hafa yfirumsjón með þessu. Miðað við mína reynslu myndi ég segja að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra væri vel til þess fallin að halda utan um slíkt, enda heldur hún utan um alls konar hluti tengda því ástandi sem er í landinu. En við megum ekki bara henda enn einu verkefninu þar yfir án þess að fjármagn fylgi. Við megum ekki gleyma því að almannavarnadeildin okkar hjá ríkislögreglustjóra er pinkulítil. Þau eru með ótal verkefni, eru akkúrat núna jafnvel að spá í hvort Grímsvötn fari að gjósa eða ekki.

Það sem mér finnst kannski svolítið vanta í þessa skýrslu er umfjöllun um allar þær sviðsmyndir sem geta komið upp og alls konar krísur sem geta gengið yfir en áhrif þeirra á það hvað við þurfum að hafa miklar neyðarbirgðir eru mjög misjöfn. Við megum heldur ekki gleyma því að stundum gerast krísur hver ofan á aðra. Í miðri fjármálakreppunni fengum við gos í Eyjafjallajökli og árið á undan fengum við svínaflensu. Ég fékk einmitt skilaboð frá bróður mínum sem var að vinna hjá Seðlabankanum þar sem stóð: Getið þið ekki farið að hætta með þessar krísur? Það er alveg nóg að díla við eina, við megum ekki gleyma því. Það hvað við þurfum mikið af neyðarbirgðum fer, eins og ég sagði, eftir sviðsmyndunum. Lokast landið alveg? Verðum við ein eftir, alveg lokuð af? Lokast kannski bara skipaflutningar eða flug eins og gerðist að vissu leyti þegar heimsfaraldurinn hófst, eða lokast fyrir viðskipti eins og gerðist hér á tímum fjármálakreppunnar þar sem allt í einu var engin leið fyrir okkur til að stunda viðskipti við útlönd? Og já, starfsfólk Seðlabankans var kallað inn til þess að búa til áætlun tveimur dögum fyrir hrun um það hvernig við gætum farið í vöruskipti með fisk fyrir lyf, olíu og mat.

Það er oft talað um það, þegar kemur að krísum, að einstaklingar og fjölskyldur þurfi að geta verið sjálfum sér nægar í 72 klukkustundir, að hvert og eitt heimili þurfi að eiga mat, lyf, vatn og annað til að endast í 72 klukkustundir. Eftir þessar 72 klukkustundir geti ríkið eða viðbragðsaðilar komið og hjálpað. Í sumum löndum var þetta tekið mjög langt, t.d. í Sviss þar sem það var í byggingarreglugerð að neyðarherbergi þyrfti að vera í hverju einasta húsi og þar þyrftu að vera matarbirgðir fyrir 72 klukkutíma. Þeir hættu þessu reyndar fyrir tæpum tíu árum hvað varðar matarbirgðirnar. Svisslendingar notuðu þessi neyðarherbergi, sem enn þurfa að vera til staðar, sem víngeymslu, enda er kannski hægt að endast í 72 klukkutíma á rauðvíni einu saman. Það er eitt að endast í 72 klukkutíma sem einstaklingur eða fjölskylda en þegar kemur að því að við hugsum um sjálf okkur sem land, hvað ætlum við að geta sinnt okkur sjálf í langan tíma? Höfum við sett okkur einhver mörk? Eru það 30 dagar, 60 dagar, 90 dagar, 180 dagar, 360 dagar? Þetta þurfum við að ræða og við þurfum að átta okkur á þessu og finna út úr því hvernig við getum náð ákveðinni birgðastöðu miðað við þau mörk sem við setjum okkur.

Það er líka mikilvægt, eins og hefur komið hér fram hjá öðrum, að við byggjum upp samstarf þegar kemur að þessu. Við höfum séð hvernig samstarfið hefur horfið eins og gerðist þegar fjármálahrunið varð. Allt í einu voru okkar bestu vinir ekki lengur tilbúnir að lána okkur. Nú eða heimsfaraldurinn þar sem við gátum nýtt okkur góð tengsl við Svía. Þeir stóðu með okkur í því að afla bóluefna. Það er mjög mikilvægt að við ræktum slíkt samstarf áður en krísurnar gerast, áður en stríðið í Úkraínu herðist, áður en netöryggið versnar. Við þurfum að vera búin að byggja slíkt upp áður en allir þessir hlutir gerast. Það er mikilvægt að byggja þetta upp bæði á stjórnmálalegu leveli en líka persónulegu. Það er svo mikilvægt, eins og sýndi sig í fjármálahruninu, þegar hægt var að halda einni pípu til útlanda opinni til að skiptast á dollurum og íslenskum krónum í gegnum JPMorgan bankann. Þá gerðist það í gegnum persónuleg tengsl sem hægt var að nýta til að búa til tengsl fyrir landið. Þetta þurfum við að læra og vera óhrædd við þetta.

Mig langaði hins vegar að renna hratt í gegnum hina ýmsu hluti sem farið var í. Þegar kemur að matnum fannst mér skýrslan vera svolítið þunn. Þar sagði eiginlega að nauðsynlegt væri að rannsaka enn og meira, komast betur að birgðastöðunni og hvað væri að gerast. Lykillinn þar, og við höfum rætt þetta hér áður á þinginu, er fæðuöryggi og innlend matvælaframleiðsla. Við þurfum að finna út úr því hvernig við getum eflt innlenda framleiðslu á sama tíma og við tryggjum að loftslag og umhverfi gjaldi ekki fyrir þá eflingu. Við þurfum t.d. að horfa á það, eins og nefnt var hér áðan, hvernig við getum ræktað meira grænmeti. Þurfum við einhverja ákveðna hvata, t.d. í raforkuverði, hvað það varðar? Eða aðgengi að raforku? Þetta eru allt þættir sem við þurfum að skoða. Og þegar kemur að matnum er ekki nóg að vita hver birgðastaðan er, heldur þurfum við líka að skrá aðfangakeðjurnar og átta okkur á því hvar hættan er á að eitthvað gerist. Eins og bændur hér inni vita þarf líka að hugsa um áburð og fóður og við þurfum að hugsa hvort það eru einhverjir aðrir valkostir. Getum við búið til eitthvað hér innan lands? Getum við nýtt eitthvað annað? Þetta þurfum við að vera búin að hugsa og búin að finna þessa valkosti og koma þeim í réttan farveg. En það er líka mikilvægt að við séum búin að hugsa það út hvað við ætlum að gera ef við erum ekki með nægan mat og þurfum að skammta og forgangsraða. Það er betra að vera búin að taka þá umræðu fyrr en seinna.

Varðandi lyfin höfum við séð það á undanförnum mánuðum og árum, þar sem við höfum verið í ákveðnu krísuástandi, heimsfaraldri og stríði í Úkraínu, að aðgengi að lyfjum, sér í lagi þeim sem eru á undanþágum en líka af almennum lyfjum, hefur verið af skornum skammti. Fólk hefur ekki verið að fá sérlyfin sín, fólk hefur jafnvel ekki verið að fá einfalda hluti eins og getnaðarvarnarsprautu — þetta hefur einfaldlega ekki verið til í landinu. Þarna þurfum við að fara í gagngera endurskoðun og við þurfum að vera viss um að við eigum nægt magn af lyfjum, ekki bara á krísutímum heldur líka á venjulegum tímum. Við þurfum að leysa þetta með merkingarnar og leiðbeiningarnar, hvort sem við látum t.d. apótekin prenta leiðbeiningarnar út og þær fylgi með í stað þess að þær þurfi að vera inni í pakkanum sem eykur framleiðslukostnaðinn mikið. Eitthvað þurfum við að gera þarna.

Við þurfum líka að hugsa svolítið vítt og breitt og ekki bara um lyf heldur heilbrigðiskerfið sem slíkt. Það eru alls konar hlutir sem heilbrigðiskerfið þarf að hafa aðgang að og við þurfum að tryggja. Gott dæmi um það er súrefni, við þurfum t.d. að hugsa um það hvar verið er að framleiða það hér á landi og hvar verið er að flytja það inn. Er það nægilega vel hugsað? Við þurfum líka að hugsa hvort við getum nýtt okkur eitthvað sem við höfum í dag á annan máta. Mig langar að taka dæmi úr heimsfaraldrinum í Bandaríkjunum. Þar stöðvuðu bruggverksmiðjur t.d. alla framleiðslu á áfengi og bjuggu til handspritt. Erum við með eitthvað slíkt? Erum við búin að tala við aðila? Þarna kemur aftur að samstarfi, við þurfum að vera búin að tala við aðila í þeim geirum sem við erum með og vera búin að tala um það. Eruð þið til í að vera með og styðja Ísland í gegnum þetta með því að framleiða ekki vodka í smátíma og framleiða handspritt eða hvað annað sem okkur vantar? Enn og aftur er það skömmtun og forgangsröðun. Við gætum þurft að skammta lyf og lækningatæki eða jafnvel hversu mörgum við hleypum inn á spítala. Við þurfum að vera búin að taka þessa umræðu áður en krísuástand skapast.

Ég ætla að reyna að komast í gegnum aðeins meira en ég sé fram á að ég muni þurfa að biðja virðulegan forseta að bæta mér aftur á mælendaskrá. Eldsneyti — það er dálítið mikið talað um jarðefnaeldsneytið en við þurfum líka að hugsa um rafmagnsframleiðslu. Eru hlutir í rafmagnsframleiðslunni sem við þurfum að vernda? Við höfum talað um netárásir. Það er orðið þannig í dag að við erum að fá smartmæla í öll hús, við erum með kerfisstjórnun á raforkukerfinu hjá Landsneti og fleirum. Þetta eru orðin skotmörk, og hvað ætlum við að gera ef þetta dettur niður? Þarna þarf fjármagn. Við erum með níu aðila í netöryggismálum hjá CERT-IS. Það er alls ekki nóg. Þetta er miklu stærri hætta en það. Við þurfum að tryggja fjármagn í eftirlit og í þessa vinnu. Ef við lendum í því að einhverjar virkjanir detta út vegna náttúruhamfara eða netárása eða hvað sem er, hvernig ætlum við að skammta rafmagnið? Erum við búin að ræða það? Erum við búin að ákveða hvernig við ætlum að forgangsraða því hverjir fá orku og hverjir ekki? Allt þetta þurfum við að horfa á og tryggja að við séum búin að hugsa upp forgangsröðun og skömmtun á eldsneyti og rafmagni.

Ég ætla að biðja virðulegan forseta um að bæta mér aftur á mælendaskrá.