Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[16:10]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð síðasta ræðumanns sem talaði hér áðan. Skilaboðin í skýrslunni eru býsna skýr sem leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að við þurfum að fara í aðgerðir til að koma saman öllum þeim þráðum sem koma fram í henni. Að því sögðu vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir að leggja þessa skýrslu fram. Hún er orðin löngu tímabær, hefði náttúrlega mátt koma fyrr, við getum oft sagt það. Við höfum haft ágætistíma. Meðan við lágum í Covid-dvala hefðum við getað tekið þessa skýrslu fram og rætt hana í þaula. Ég held að það sé hægt að ræða hvern einasta þátt skýrslunnar ansi ítarlega og fá jafnvel þannig fram þá aðgerðaáætlun sem þarf að ráðast í á hverju sviði og það tímasett.

Ég ætla að byrja á því að ræða aðeins um kaflann um matvæli. Mér finnst hann áhugaverður af því að mér finnst hann vera undirstaða þess sem við þurfum á að halda nú og í framhaldinu. Ég verð því að minna á þingsályktunartillögu okkar í Miðflokknum, um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu, sem við lögðum fram fyrir nokkru. Hún var einnig lögð fram á síðasta þingi. Að því sögðu er líka mikilvægt að líta til þess að bændur og fyrirtæki og einstaklingar vítt og breitt um landið hafa ítrekað lýst yfir því að þeir séu tilbúnir að ráðast í það sem þarf að gera en það kemur einmitt fram í þingsályktunartillögunni hvernig við getum best staðið að rekstrarumhverfi þeirra aðila sem sinna þessari mikilvægu grundvallarstoð í íslensku samfélagi. Við þurfum að tryggja matvælaöryggi og gera ráð fyrir þessum birgðum í landinu. Ég held að við séum öll sammála um það, þó það nú væri. En það er staðreynd að sótt hefur verið að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum síðastliðin ár. Ef við viljum raunverulega tryggja matvælaöryggi þurfum við að auka stuðning við landbúnað og við þurfum að draga úr íþyngjandi reglubyrði. Þegar maður fer austur á land og hittir þar bændur í lífrænni framleiðslu eru þeir á harðahlaupum við að finna upp hvernig þeir geta svarað nýjustu reglugerðarbreytingum frá Evrópusambandinu. Þetta er oft gríðarlega flókið og erfitt að ferðast í því umhverfi sem þeir búa við og við ættum að geta gert betur til að lífræn framleiðsla geti vaxið og dafnað. Landbúnaðurinn okkar er í samkeppni við landbúnað annars staðar og því þurfum við að standa okkur betur. Við viljum að landbúnaðurinn og þessi matvælaframleiðsla skapi öryggi, það verður aldrei nógu oft sagt, og það kostar fjármuni að fjárfesta í þessari matvælaframleiðslu.

Annar punktur sem mig langar að snerta á er skipulag áhættugreiningar fyrir einstaka atburði, eins og það kallast í skýrslunni, þegar um er að ræða ófyrirsjáanlegar aðstæður. Það getur verið heimsfaraldur, stríðsógnir og náttúruhamfarir, jafnvel af ýmsum toga, ég vil taka það sérstaklega fram. Því miður þekkjum við nú þegar þessar ógnvænlegu aðstæður og í skýrslunni eru ágætisleiðbeiningar um næstu skref. Það þarf að taka þau með ákveðnum hætti, eins og ég nefndi hér í byrjun, við þurfum tímasetta aðgerðaáætlun og við þurfum að bregðast ansi hratt við, t.d. ef við horfum enn og aftur á matvælaframleiðslu og það rekstrarumhverfi sem þar er til staðar.

Annar þáttur sem er mikilvægur eru samgöngur. Það er ágætiskafli um þær þar sem fjallað er um að ef rof er á samgöngum vegna ófyrirséðra atburða geti samgöngukerfi hreinlega legið niðri innan lands og jafnvel til og frá landinu. Ef samgöngurof verður mun það hafa gríðarleg áhrif á íbúa landsins. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Samgöngurof kann að hafa stórfelld áhrif á fólks- og vöruflutninga til lengri eða skemmri tíma og því haft mikil áhrif á öryggi fólks og þýðingarmikla starfsemi samfélagsins, t.d. ef hafnir lokast eða flug stöðvast eða vegasamgöngur liggja niðri. Ef siglingar stöðvast til landsins hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir aðföng erlendis frá.“

Þetta vitum við og við þurfum að bregðast við.

Það er mikilvægt að hafa í huga, þegar við áttum okkur á því hvaða vörur og aðföng eru framleidd hér á landi, hvaða vörur það eru sem við reiðum okkur á frá útlöndum. Við verðum að vera viðbúin því að rof geti orðið og með matvælaframleiðslunni getum við hugsanlega byggt einhvers konar brú þannig að ekki skapist ófremdarástand. Eins verðum við að huga að því, hvað varðar samgöngur innan lands, að íbúar landsins geti verið fullvissir um að næg aðföng séu til í öllum landshlutum.

Það væri líka áhugavert að sjá greiningu á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sérstaklega ef þetta títt umrædda rof verður á samgöngum og hvernig við ætlum þá að þjóna íbúum ef slíkt rof verður á samgöngum. Þetta er stórmál í mínum huga vegna þess að við vitum nú þegar að fólk býr við skerta færni til að koma sér til læknis án þess að það kosti hreinlega vesen og fjármuni. Það er líka mikilvægt að almenningur sé upplýstur um þessi mál þannig að íbúar landsins geti fullvissað sig um, ef hætta steðjar að, að ekki verði skortur á nauðsynjavöru. Það er virkilega áhugavert að sjá niðurstöður skýrslunnar og sjá hvaða úrbætur eru lagðar til. Hins vegar hefði verið áhugavert að sjá nákvæmari úrlausnir, eins og ég ræddi um í byrjun, á því hvað það er sem við þurfum að ráðast í sem næstu skref. Ef við tökum t.d. matvælaöryggi þurfum við að huga að því hvernig við ætlum að tryggja og efla íslenskan landbúnað. Við verðum líka að hafa í huga það sem allmargir þingmenn hafa rætt hér í dag, þ.e. lyfjaskort, og ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson í sambandi við undanþágulyf. Það er mjög stórt mál sem við verðum að taka á sem fyrst, ekki endilega vegna þessa heldur þurfum við hreinlega að ráðast í aðgerðir þar.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta mun ganga. Ég vona að þetta verði ekki enn ein skýrslan. Einhverjar skýrslur hafa verið gerðar en ég vil sjá áhrif af því. Hæstv. forsætisráðherra talaði um að þessi vinna færi örugglega fram allt næsta ár. Ég vona að það verði strax í byrjun næsta árs sem við förum að sjá ákveðin skref stigin og ríkisstjórnin muni fara enn lengra og þá með tímasetta aðgerðaáætlun.