Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[16:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og þakka fyrir umræðuna hér í dag sem ég held að sé afskaplega mikilvæg, að ræða neyðarbirgðir í hinu risastóra samhengi sem það nú er á Íslandi, sérstaklega þar sem, eins og hér hefur margoft komið fram í dag, við erum svo mjög öðrum háð þegar kemur að slíku. Af því að hér hefur aðeins verið komið inn á netárásir og fjarskiptaöryggi þá vorum við í atvinnuveganefnd á fundi í morgun hjá Orkustofnun og þar var m.a. verið að ræða hversu auðvelt það væri orðið, þar sem við værum svo snjallvædd, að brjótast inn í hin ýmsu kerfi og það ætti líka við um orkuöryggi. Og hvað ef ekkert er rafmagnið? Við værum illa stödd ef brotist yrði inn í kerfi Landsvirkjunar eða eitthvað slíkt. Það er að mörgu að hyggja í stóra samhenginu. Ég ætla líka aðeins að drepa á fjarskiptaöryggi, það er mjög mikilvægt og við þekkjum það. Hér höfum við rætt um samgöngur og annað slíkt öryggi en þegar ekki er um að ræða fjarskiptaöryggi þar sem aðilar þurfa að fara um og ekki einu sinni Tetra-samband, er það eitthvað sem við verðum að taka til greina og fara betur yfir, skilgreina enn frekar. Við höfum verið að gera mjög góða hluti í þessum málum undanfarin ár. En það eru nokkrir bútar eftir af landinu þar sem þarf alveg augljóslega að gera betur eins og komið hefur í ljós, ekki síst í veðurofsa sem við höfum þurft að takast á við nýlega. Hér var aðventustormurinn 2019 nefndur og sannarlega mikið búið að gera síðan þá og er á verkáætlun að gera ýmislegt fleira en það sýndi sig um helgina að Hólasandslínan hélt og kerfið stóð þetta af sér að mestu leyti, sem betur fer var veðrið ekki alveg jafn slæmt og við áttum von á. En við sjáum að með því að huga betur að innviðunum þá erum við auðvitað að tryggja að þeir a.m.k. haldi.

Ég ætlaði eins og fleiri hér að ræða sérstaklega um matvæla- og fæðuöryggi, það er jú mikilvægt og á sannarlega við hjá okkur núna eins og heimsmyndin hefur verið að málast upp á síðustu árum. Í heimsfaraldrinum sáum við hvernig truflanir á aðfangakeðjum höfðu áhrif á efnahagsástandið um heim allan og við höfum ekki farið varhluta af því hér á Íslandi, svo sannarlega ekki. Nú sjáum við því miður þetta gerast vegna áhrifa af hinum ólögmæta stríðsrekstri rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Það ýtir ekki bara undir hækkandi heimsmarkaðsverð á matvælum og nauðsynlegum aðföngum til matvælaframleiðslu heldur svo mörgu öðru. Þau eru ótvíræð, þessi áhrif, og þau sjást um heim allan og við eigum eftir að sjá mikið gerast, ekki síst þegar kemur að því að Evrópubúum verður kalt í vetur vegna þess að orkan er svo dýr. En hér á landi þá treystum við á innflutning fyrir innlenda matvælaframleiðslu vegna þess að við þurfum að kaupa eldsneyti, fóður, áburð, sáðvöru og ýmsar aðrar nauðsynjavörur. Við vitum alveg að við verðum aldrei sjálfbær að öllu leyti og það er í sjálfu sér kannski engin þjóð en það eru þrátt fyrir það ýmis tækifæri til að gera betur. Það sýnir skýrslan sem hér er til umræðu en þar er bent á að við Íslendingar framleiðum aðeins um 1% af þeirri kornvöru sem til þarf. Og af því að við þingmenn vorum nú á ferð í Norðausturkjördæmi í síðustu viku þá kom einmitt fram að þarna er þörf á að gera betur. Það er líka þörf á því að halda áfram stuðningi við ylrækt og útiræktun. Þar getum við gert svo miklu betur en við erum að gera í dag. Það sýndi sig bara strax þegar veittur var viðbótarstuðningur á síðasta kjörtímabili hvers lags innspýting það var og þarna þurfum við að halda áfram og gera betur. Við stöndum ágætlega í framleiðslu á mjólk og kjöti og fiski en öll sú framleiðsla er samt háð þeirri heimsmynd að hnökralaust framboð sé á ódýrum aðföngum til framleiðslu. Fæðuöryggi hefur því, eins og áður segir, hlotið meiri þunga eftir að stríðsreksturinn hófst á mikilvægum landbúnaðarsvæðum í Úkraínu. Þá verðum við að horfast í augu við þessar öfgar sem við sjáum í veðurfari og sáum t.d. í Evrópu í sumar og við erum auðvitað líka að upplifa hér á Íslandi að einhverju leyti. Það mun líklega hafa, eins og við gerum öll ráð fyrir, enn frekari áhrif á uppskeru, ekki síst. Við ræddum í þessari ferð við bændur í Eyjafirði og fyrir austan og eins og hefur komið fram í fréttum varð talsverður uppskerubrestur í Eyjafirði en bændur höfðu haft væntingar um góða uppskeru. Það er víða áætlað að um 50–70% korns á ökrum hafi skemmst vegna hvassviðris sem gekk yfir landið. Svo eru auðvitað þessir ógnvænlegu þurrkar í Evrópu sem hafa valdið talsverðu uppskerutjóni á síðustu mánuðum. Það hlýtur að vera áhyggjuefni í ljósi þess að 80% af grænmeti og ávöxtum sem við erum að flytja inn koma frá Evrópusambandssvæðinu og 8% frá Bretlandi. Bændur bæði í Eyjafirði og fyrir austan ræddu það sérstaklega við okkur að huga þyrfti að einhvers konar tryggingavernd varðandi kornið vegna þess að ekki væri hægt að tryggja sig fyrir þessu. Það koma kannski tvö ár mjög góð og svo er eitt ár eins og núna þar sem bresturinn er mikill og bændur bera þetta einir. Það er alveg ljóst að þetta er framleiðsla sem kemur til með að vera háð opinberum stuðningi. En þá verðum við líka að horfa í, þótt ekki sé nema kolefnissporið, á móti, það skiptir miklu máli. Ráðherra hefur sagt að það sé þess virði að skoða sameiningu náttúruhamfaratryggingasjóðs og Bjargráðasjóðs þannig að til sé sterkur sjóður sem geti m.a. tekið utan um svona hamfarir. Það er alveg ljóst í mínum huga að þurrkar og önnur náttúruvá mun spila veigameiri þátt vegna loftslagsbreytinga sem eru jú af mannavöldum og líka vegna ósjálfbærra búskaparhátta. Það er ekki ósennilegt að það muni koma verst niður á þeim sem minnst mega sín eins og gjarnan vill vera. Við megum heldur ekki gleyma því að fæðuskortur leiðir oft til frekari átaka, sér í lagi þegar litlu er til að skipta. Þannig hefur innrás rússneskra stjórnvalda keðjuverkandi áhrif á fæðuöryggi um allan heim sem í senn ógnar þessu viðkvæma ástandi víða, enda er það þekkt stærð í stríðsrekstri að mynda þrýsting á önnur ríki heimsins að halda að sér höndum og blanda sér ekki í átökin með því að hafa áhrif á framboð á nauðsynjavörum.

Forseti. Það er ljóst að við þurfum að auka innlenda framleiðslu á aðföngum sem þarf til matvælaframleiðslu á sama tíma og við byggjum upp sjálfbæran landbúnað. En það gerist ekki með pennastriki. Til þess þarf að lágmarka áhrif utanaðkomandi þátta á matvælaframleiðslu og auka fæðuöryggi á Íslandi og við þurfum til þess víðtækt samstarf fjölda aðila.

Á síðustu árum hefur vitund framleiðenda og fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð aukist. Til að tryggja viðunandi birgðastöðu matvæla í hættuástandi þarf samstarf allra hagaðila, fyrirtækja í innflutningi og sölu á vörum, stjórnvalda og þeirra sem stunda framleiðslu á matvælum til að best megi tryggja að til staðar séu vörur og búnaður sem nauðsynlegur er svo best megi tryggja lífsafkomu þjóðarinnar. Það er mín trú að hér á landi ríki mikill skilningur á utanaðkomandi ógnum og hamförum. Við búum í návist eldfjalla og höfum lengi þurft að takast á við náttúruöflin. Tímarnir sem við nú lifum minna okkur á hvað við þurfum að gera betur til að best megi tryggja matvælaöryggi til framtíðar. Þess vegna fagna ég þessari skýrslu sem eykur sannarlega yfirsýn og skýrir umfang þess sem við þurfum að takast á við til að tryggja matvælaöryggi sem og öryggi annarra neyðarbirgða. Verkið fram undan er auðvitað að taka þessa skýrslu og fara enn frekar yfir hana með hagaðilum og útbúa gott verklag, m.a. við að safna upplýsingum, sinna eftirliti og setja fram aðgerðaáætlun.