Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[16:28]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra yfirferðina á þessari mikilvægu skýrslu og öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu í dag. Það er jákvætt að heyra frá hæstv. ráðherra að vinna sé hafin við að bregðast við tillögum skýrslunnar, m.a. víðtækt samráð í samfélaginu til að styrkja áfallaþol og aðgerðir til að tryggja að eftirlit verði haft með neyðarbirgðum í landinu. Við þekkjum það sem hér búum að við erum mjög háð flutningum til og frá landinu en þetta er vel undirstrikað í skýrslunni sem er hér til umræðu í dag, undirstrikað hversu margt af því sem telst vera lífsnauðsynjar er algerlega háð innflutningi til landsins. Hæstv. forsætisráðherra minntist á að e.t.v. hefði eitthvað í skýrslunni, sem sagt í þessari nauðsynjaflokkun, komið fólki á óvart en það á væntanlega ekki við um umfjöllun um framboð jarðefnaeldsneytis enda er það forsenda þess að við séum örugg á fjölmörgum sviðum, m.a. í ýmiss konar samgöngum, matvælaframleiðslu og fiskveiðum.

Virðulegi forseti. Niðurstöður skýrslunnar varðandi birgðastöðu jarðefnaeldsneytis á Íslandi eru sláandi og eins og fleiri hafa undrast yfir þá kemur þar fram að aðgengilegar birgðir í lok hvers árs dugi fyrir um 20–50 daga eldsneytisþörf og eru dæmi um að birgðir þotueldsneytis hafi farið undir tíu daga. En það er líka hægt að nefna að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að enginn ábyrgðaraðili sé tilgreindur og engin krafa gerð um magn birgða. Þótt við séum hér mun betur í stakk búin en margir, ef ekki flestir, varðandi það hversu háð við erum jarðefnaeldsneyti, og við höfum sett okkur háleit markmið hvað það varðar, er staðan enn sú að skortur á því getur takmarkað verulega hefðbundna virkni samfélagsins. Margoft hefur reyndar verið vakin athygli á þessari stöðu, til að mynda í orkustefnu Íslands, skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 og við höfum fengið falleinkunn fyrir orkuöryggi í úttektum Alþjóðaorkuráðsins og þá aðallega vegna skorts á neyðarbirgðum eldsneytis.

Við sem búum á eyju og erum ótengd orkukerfum annarra ríkja getum auðvitað ekki sætt okkur við lakari stöðu en nágrannaríki okkar hafa í þessum efnum og það er undirstrikað í niðurstöðum starfshópsins. Þess vegna er lögð áhersla á að við tryggjum a.m.k. 90 daga birgðir eins og alþjóðleg viðmið gera kröfu um og hæstv. ráðherra fór yfir í framsögu sinni. Sömuleiðis er lagt til að við komum á rafrænni skráningu innflutningsaðila jarðefnaeldsneytis til að auðvelda eftirlit og mat á stöðunni í rauntíma og tel ég það vera mjög mikilvægt.

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir er að finna á þingmálaskrá frumvarp hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um eldsneytisbirgðir þar sem kveðið verður á um lágmarksbirgðahald jarðefnaeldsneytis í samræmi við orkustefnu Íslands, skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 og aðgerðirnar sem átakshópur um úrbætur á innviðum skilgreindi í kjölfar óveðursins 2019. Það er síðan mikilvægt að í þessum lögum verði sömuleiðis skilgreint við hvaða aðstæður megi leysa út neyðarbirgðir og hver komi að slíkri ákvörðun. Það er jákvætt að þetta standi til og vonandi er samþykkt laganna forgangsmál enda þolir það enga bið. Við búum ekki við öryggi þegar aðgengilegar birgðir jarðefnaeldsneytis duga einungis fyrir nokkurra daga eldsneytisþörf.