Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Vísinda- og nýsköpunarráð.

188. mál
[17:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg. Ég mun nefna það við formann hv. allsherjar- og menntamálanefndar að eiga einmitt þetta samráð við atvinnuveganefnd. Þetta er tvískipt mál. Það var auðvitað svo að í Vísinda- og tækniráði skipuðu fulltrúar atvinnuveganna fulltrúa vegna þess að ætlunin var að tengja nýsköpun og vísindi inn í alla atvinnuvegi. Við höfum auðvitað séð ótrúlegar breytingar eiga sér stað á undanförnum árum þar sem við sjáum hugverka- og þekkingariðnaðinn vaxa og þekkingu vaxa í hverjum einasta atvinnuvegi. Því höfum við verið að gera eitthvað rétt þótt alltaf sé hægt að gera betur. Ég held að það sé góð hugmynd að þetta verði borið undir hv. atvinnuveganefnd og fagna því sérstaklega að hv. þingmaður talaði um að við ættum að klára þetta mál sem fyrst. Ég er mjög fylgjandi því og vona að þetta verði afgreitt fyrir áramót.