Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

stjórn fiskveiða.

19. mál
[17:53]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að vekja athygli á því í þessu frumvarpi sem hv. þingmaður var að mæla fyrir að það er látið í það skína í greinargerð þessa frumvarps að meginreglan sé sú að til að tengdir aðilar séu skilgreindir í lögum þá þurfi 25% eignarhlutur í lögaðilum að vera til staðar, þegar meginreglan samkvæmt íslenskum lögum er sú að það er meirihlutaeign sem skilgreinir tengda aðila. Þetta er í lögum um tekjuskatt eins og hv. þingmanni er væntanlega kunnugt um. Þetta er líka í lögum um hlutafélög þar sem gengið er út frá því að það sé meirihlutaeign sem tryggir yfirráð yfir félagi.

Það er látið í það skína að íslenskur sjávarútvegur búi við eitthvert regluverk í þessum efnum sem er öðruvísi en gildir um aðrar atvinnugreinar. Það er ekki rétt. Meginreglan er sú að það er meirihlutaeign sem gildir, 50%. Í tilviki sjávarútvegsins, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, þá er þetta meira að segja aðeins strangara þar sem hlutlægt mat Fiskistofu kemur til viðbótar við meirihlutaeignina. Þetta finnst mér vera gagnrýnisvert í greinargerð þessa frumvarps og mér er líka umhugað um hvort greinarhöfundar átti sig á samanburðinum á því að tengja saman lög um peningaþvætti og aðgerðir gegn hryðjuverkum við stjórn fiskveiða? Hvaða verndarhagsmunir eru þarna undir og telur hv. þingmaður þá vera sambærilega?