Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

stjórn fiskveiða.

19. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er beinlínis rangt hjá hv. þingmanni að eingöngu sé miðað við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög um skráningu raunverulegra eigenda í þessari greinargerð vegna þess að meginviðmiðið er skilgreining á tengdum aðilum á fjármálamarkaði. Þar eru þau viðmið sett vegna þess að það er talið skipta máli fyrir samfélagið að ekki séu miklar tengingar þar á milli. Fjármálafyrirtæki eru lykilstofnanir í samfélaginu, líkt og sjávarútvegsfyrirtækin eru úti um allt land.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að skilgreina hvað eru tengdir aðilar þannig að samþjöppunin verði ekki meiri en orðið er. Hún er mjög mikil. Við sjáum að stór útgerðarfyrirtæki eru tengd í gegnum stjórnarsetu, alls konar eignatengsl, fjölskyldutengsl o.s.frv. og samráð er haft um veiðar, vinnslu og sölu afurða. Það er beinlínis hættulegt fyrir samfélagið að leyfa slíka samþjöppun og ekki réttlátt. Það má vera að hægt sé að færa efnahagsleg og meira að segja umhverfisleg rök fyrir því að þetta sé gott. En samfélagslega er það ekki gott að vera með fáa útgerðarrisa sem hafa töglin og hagldirnar í samfélögum og hreðjatak á stjórnvöldum, leyfi ég mér að segja.