Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

almannatryggingar.

44. mál
[18:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála. Það þarf að núllstilla kerfið og hætta að byggja það upp þannig að það haldi að allir séu glæpamenn. Þetta er rétt eins og þegar einhverjum dettur í hug að verða ástfanginn af útlendingi, þá reiknar kerfið með því að það hljóti að vera plat. Forsendan er ekki að ástin sé grunnurinn heldur að svindlið sé til staðar. Sama gildir um þetta kerfi sem við ræðum, miðað er við að einhver muni örugglega reyna að svindla á kerfinu og þess vegna þarf að takmarka allt, alls staðar. Það er miklu auðveldara að hafa kerfi sem er bara hreint, beint og skerðingarlaust og gert þannig að þetta sé réttur sem þú hefur áunnið þér og þurfir ekki að hafa áhyggjur af því að fá eitthvað annars staðar frá eða að þú fáir skerðingar fyrir það að reyna að vinna. Við eigum að vera með vinnuhvetjandi kerfi fyrir t.d. öryrkja en ekki vinnuskerðingarkerfi. Ég er því hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að einfalda kerfið, afnema skerðingar og gera hlutina miklu skilvirkari.