Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í Fréttablaðinu í dag skrifar Eyþór Víðisson opið bréf til Alþingis þar sem hann rekur það m.a. að það styttist í fyrstu hópskotárásina á Íslandi, fimm, tíu, fimmtán ár, hann veit það ekki. Ég vonast til að slík árás verði aldrei en hann bendir á mjög athyglisverða staðreynd. Hér á landi er til ansi mikið af hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum vopnum sem er algerlega tilgangslaust að séu til hér á landi. Í vopnalögum er einmitt að finna ákvæði þar sem hægt er að veita undanþágu frá banni við að flytja inn slík vopn út af einhverju söfnunargildi en þá er líka algerlega óþarft að það sé nýtt, nothæft vopn og að það sé einhvers staðar annars staðar heldur en á alvörusafni, ekki inni á heimili einhvers. Þetta eru vopn sem eru hönnuð til þess að drepa fólk á mjög skömmum tíma, eins og hann segir í greininni, og það má safna þeim. Af hverju? Af því að þau hafa tilfinningalegt gildi fyrir safnarann? spyr hann og hvort einhver geti rökstutt það. Ég held að við ættum að taka undir þessa beiðni í þessu opna bréfi til Alþingis, taka undir það að þessi vopn skuli ekki vera hérna á landi, þau séu alger óþarfi. Þau eru líka alger óþarfi í höndum lögreglu. Við skulum hafa það algerlega á hreinu líka. Lögregla hefur ekkert að gera við vopn sem eru gerð til þess að drepa fjölda fólks á stuttum tíma. Hér segir: Þingfólk, það er í ykkar höndum að koma í veg fyrir þetta. Breytum vopnalögum og bönnum byssusöfnun.