Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Til hvaða ráða getur almenningur gripið þegar orð fara ekki saman við aðgerðir hjá stjórnmálafólki? Þó að ríkisstjórnir heims hafi árið 2015 sammælst um að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C þá endurspegla aðgerðir engan veginn þann metnað sem þarf. Þess vegna er hlýnunin nú þegar komin upp í 1,1°C. Tímabil alvarlegra og hættulegra loftslagsbreytinga af mannavöldum er hafið. Höfum það á hreinu að þetta tímabil er afleiðing af aðgerðum mannfólksins og stjórnvalda sem hafa lengi vitað hvert stefndi. Við sjáum öfgar í allar áttir, heiftarlegar hitabylgjur og þurrka, flóð og aurskriður. Það er neyðarástand í lífhvolfi og lofthjúpi. Það er neyðarástand á jörðinni allri vegna þess að mannkynið hefur allt of lengi hleypt út allt of miklu af gróðurhúsalofttegundum. Sömuleiðis ríkir pólitískt neyðarástand vegna þess að stjórnvöld eru ekki að grípa til þeirra aðgerða, þeirra stóru breytinga, sem nauðsynlegar eru. Með þessu eru ríkisstjórnir um allan heim að bregðast ábyrgð sinni gagnvart jörðinni, gagnvart öllum sem lifa á henni og sem munu lifa á henni, sérstaklega þeim sem búa í fátækari hlutum heims og eru þess vegna viðkvæmari fyrir þeim veðuröfgum sem farið er að gæta og munu aukast með ógnarhraða.

Nú er á fimmta ár liðið frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur settist að völdum. Frá fyrsta degi hefur stjórnin barið sér á brjóst fyrir að vera metnaðarfull í loftslagsmálum en út úr núverandi stöðu í loftslagsmálum getum við lesið hversu langt þessi meinti metnaður nær. Sú staða er nefnilega afrakstur stefnu þeirrar stjórnar sem situr í dag, stefnu þeirra aðgerða sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til og staðan er vægast sagt ekki nógu góð. Hvað kemur í ljós ef rýnt er í afraksturinn? Jú, skýrasta dæmið er kannski nýlegar bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar sem sýna að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hafa aukist um 3% milli áranna 2020 og 2021. Maður staldrar dálítið við þetta. Losun gróðurhúsalofttegunda jókst á milli ára. Þessar tölur eru skýrt merki þess hvernig ríkisstjórninni mistókst að leggja grunn að grænni viðspyrnu samfélagsins eftir Covid-faraldurinn. Ekki nýtti hún heldur árin þar á undan til að gera raunverulegar eða varanlegar breytingar á grunnkerfum samfélagsins í þágu grænna umskipta. Það er, eins hörmulega og það hljómar, ekkert sem bendir til annars en þess að á árinu 2022 geti orðið enn meiri aukning á losun gróðurhúsalofttegunda.

Ríkisstjórnin er einfaldlega á rangri leið. Hér kristallast vandamálið sem fylgir því að blanda saman flokkum með jafn ólíka sýn á loftslagsmál og raun ber vitni á stjórnarheimilinu. Það elur af sér stefnuleysi. Stefnuleysi dugar ekki. Það dugar ekki að vona það besta heldur þarf skýrar og einbeittar aðgerðir þegar kemur að loftslagsmálum. Það eru ekki bara aðgerðasinnar og stjórnmálafólk sem hefur bent á þetta heldur er farið að bera sífellt meira á beittri gagnrýni frá sérfræðingum á vegum stjórnvalda sjálfra. Þannig sagði Loftslagsráð í sumar, með leyfi forseta:

„Markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru óljós og ófullnægjandi. Nauðsynlegt er að stjórnvöld skýri og útfæri þessi markmið nánar.“

Þessi orð Loftslagsráðs eru rituð þegar fimm ár eru liðin af valdatíð ríkisstjórnarinnar. Þau ríma alveg vandræðalega illa við fullyrðingar ráðherra um að markmið ríkisstjórnarinnar séu metnaðarfull og teygi anga sína um allt stjórnkerfið. Það er orðið deginum ljósara að þegar upp er staðið leggur ríkisstjórnin frekar áherslu á innantóm orð en raunverulegar og róttækar aðgerðir. Loftslagsváin er stærsta áskorun mannkyns, ekki bara í dag heldur í sögunni, og hún krefst gríðarlegra kerfisbreytinga. Það kallar þó ekki á bölsýni því þessar breytingar geta verið til góðs og þær eiga að vera það. Ekki nóg með það heldur hefði Ísland alla burði til að leiða framvarðasveit þjóðríkja sem berjast af alvöru gegn loftslagsvánni með réttlátum og framsæknum aðgerðum. Því miður er að verða fullreynt með að ríkisstjórnin standi undir þeirri ábyrgð og því nauðsynlegt fyrir Alþingi að taka af skarið og skipa henni til verka.

Fyrsta skrefið í því er að tala skýrt. Það ríkir neyðarástand og þá skulum við bara lýsa því formlega yfir. Formleg yfirlýsing Alþingis myndar grundvöll fyrir miklu öflugri aðgerðum en gripið hefur verið til fram til þessa. Síðan er auðvitað mikilvægt að slíkri yfirlýsingu sé fylgt eftir þannig að hún verði ekki bara enn ein æfingin í grænþvotti fyrir ríkisstjórnina. Það kallar á róttækar, tímasettar og fjármagnaðar aðgerðir sem vaxa að umfangi og metnaði ár frá ári. Þær þurfa að fylgja mælanlegum og gagnsæjum markmiðum sem veita frjálsum félagasamtökum og almenningi möguleika til aðhalds. Þær þurfa að byggja á réttlæti. Þær mega ekki auka misskiptingu í samfélaginu eins og gerist þegar meginþungi stuðnings ríkisstjórnarinnar rennur til að gera efnaðri hluta samfélagsins kleift að taka þátt í orkuskiptum en skilur restina eftir. Til að þetta geti átt sér stað þurfum við fyrst að lýsa því yfir að hér ríki neyðarástand. Við þurfum að horfast í augu við sannleikann til að geta brugðist við honum og við getum það. Hugmyndin um neyðarástand er okkur engin nýlunda. Við vitum raunar mjög vel hvers við erum megnug þegar við erum tilbúin til að horfast í augu við neyðina og grípa til aðgerða. Landið er nýbúið að ganga í gegnum kórónuveirufaraldurinn eins og heimurinn allur, neyðarástand sem knúði stjórnvöld til að ráðast í yfirgripsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir, allt á mettíma. Faraldurinn sýndi svo að ekki varð um villst að þegar stjórnvöld vilja þá geta þau brugðist vel við og með hraði þegar neyðarástand ríkir.

En höfum lykilorðið hér hugfast. Stjórnvöld þurfa að vilja bregðast við skjótt og vel, en svo virðist sem það sé enginn vilji eða áhugi fyrir því að ríkisstjórnin taki skæðustu ógn mannkynssögunnar föstum tökum, og það þrátt fyrir að tala mjög frjálslega um að neyðarástand standi yfir eins og forsætisráðherra gerði t.d. í stefnuræðu sinni nýverið. Það skýtur sérstaklega skökku við að forsætisráðherra noti hugtakið um neyðarástand í ljósi þess hve oft fólk hefur leitað til ríkisstjórnar hennar og krafist formlegrar yfirlýsingar þess efnis. Ekkert þeirra hefur haft erindi sem erfiði. Nýjasta og skýrasta dæmið er sennilega að finna í lýsingu Bjarkar Guðmundsdóttur á samskiptum sínum við forsætisráðherra árið 2019, samskiptum sem ólu af sér loforð um að lýsa yfir neyðarástandi á fundi Sameinuðu þjóðanna sem ráðherrann sleppti einfaldlega að gera þegar á hólminn var komið. Þetta hegðunarmynstur er farið að verða býsna fyrirsjáanlegt. Ríkisstjórnin boðar mikinn fögnuð og róttækar breytingar. Svo heldur hún áfram að boða miklar breytingar og grænt hagkerfi og því næst talar hún um að breytingar séu handan við hornið — þið sjáið hvert ég er að fara.

Sú tillaga sem hér er til umræðu snýst um að hlusta á alla sérfræðingana, aðgerðasinnana Gretu Thunberg og Björk okkar, að hlusta á vísindin og gangverk náttúrunnar og lýsa yfir neyðarástandinu sem svo augljóslega ríkir. Ef þú, Björk, ert að hlusta þá átt þú enn bandamenn í baráttunni við loftslagsbreytingar hér innan Alþingis. Það er deginum ljósara að verkefnið er ríkisstjórninni ofvaxið og þess vegna þarf Alþingi að taka málið í eigin hendur með þessum hætti. Ef Alþingi viðurkennir sannleikann sem ríkisstjórnin vill ekki horfast í augu við þá má taka skref fram á við. Því er hér lagt til að Alþingi álykti að neyðarástand ríki í loftslagsmálum og feli ríkisstjórninni að haga áætlanagerð sinni og aðgerðum í samræmi við það.

Uppskriftin að árangri er nefnilega í sjálfu sér ekkert flókin. Við byrjum með þetta einfalda orð, neyðarástand, og sendum þannig skýr skilaboð um að við áttum okkur á umfangi vandans. Látum það stýra aðgerðum stjórnvalda. Þannig breytum við samfélaginu til góðs og komumst saman í gegnum þetta.