Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[15:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta andsvar og ég get tekið undir það sem hér kom fram. Það er auðvitað með nokkrum ólíkindum að vera með forsætisráðherra sem lætur sér ekki nægja að draga lappirnar í loftslagsmálum hérna á Íslandi heldur gengur svo langt, ef marka má frásögn Bjarkar Guðmundsdóttur og Gretu Thunberg sem var vitnað til hér áðan, að bregða í raun fæti fyrir aðgerðasinna í loftslagsmálum á erlendri grundu. Þetta er mjög skringileg staða sem var ekki alveg fyrirséð fyrir nokkrum árum. Réttlæting ríkisstjórnarinnar fyrir því að lýsa ekki yfir neyðarástandi í loftslagsmálum þegar krafan um það var hvað háværust fyrir nokkrum árum hefur verið sú að það þurfi að leggja áherslu á raunverulegar aðgerðir frekar en yfirlýsingar — gott og vel. En svo bólar ekkert á þessum aðgerðum, bólar ekkert á þeim kerfisbreytingum sem sannarlega er þörf til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og losunin eykst bara milli ára. Af hverju er ekki komin fram ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem endurspeglar metnaðarfyllri markmið? Hvers vegna bera fjárlög og fjármálaáætlun engin merki þess að það séu komin einhver metnaðarfyllri loftslagsmarkmið til sögunnar? Þetta eru þær spurningar sem vakna og þessi seinagangur og úrræðaleysi í loftslagsmálum er óboðlegur. Það er komið nóg af þessu og því held ég að það sé þarfaverk að Alþingi taki svolítið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og lýsi yfir að það ríki neyðarástand í loftslagsmálum og skikki ríkisstjórnina til að haga áætlanagerð sinni í samræmi við þetta. (Forseti hringir.) Því er þessi þingsályktunatillaga þarfaverk.