Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að eitt af því sem spilli sýn ríkisstjórnarinnar sé kannski hversu slæmu búi hún tók við. Hér hafði engin ríkisstjórn á undan henni sýnt þann metnað sem þurfti í loftslagsmálum og því er mjög auðvelt að telja sér trú um að allt sé í himnalagi ef um er að ræða bestu ríkisstjórn sögunnar. Það breytir því samt ekki að ríkisstjórnin er handónýt þegar kemur að loftslagsmálum. Það ætti ekki endilega að stefna að því að að vera besta stjórnin af mörgum slæmum og held ég að seinagangurinn sé afsakaður vegna þessa, þau telja sér trú um að þau séu að gera góða hluti og þess vegna liggi ekkert mikið á að uppfæra áætlanir. Hér erum við t.d. enn þá með í gildi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem var uppfærð 2020 en er að stofni til sama áætlun og var gerð til bráðabirgða vorið 2018, stuttu eftir að ríkisstjórnin var upphaflega mynduð. Sú áætlun miðar við hlutdeild Íslands í sameiginlegu 40% markmiði Evrópusambandsins sem hækkaði upp í 55% fyrir tveimur árum. Ríkisstjórnin er búin að sitja í heilt ár með það yfirlýsta markmið að vilja draga úr þeirri losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda, það sem er fyrir utan stóriðjuna, um 55% óháð því hvað gerist í þessu samkomulagi við Evrópusambandið. Það bólar ekki á neinum aðgerðum eða uppfærslu á aðgerðaáætlun til að sýna hvað það felur og hvernig eigi að ná þessu fram. Því hefur verið kyrrstaða og frost frá 2020, (Forseti hringir.) á tímum þar sem við ættum að sjá allar áætlanir uppfærðar með auknum metnaði á hverju einasta ári.