Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagðist nú í smá sagnfræðigrúsk þegar við vorum að undirbúa þingsályktunartillöguna og fletti upp fréttum af því um þetta leyti árs 2019 þegar aðstandendur loftslagsverkfallsins fóru á fund ríkisstjórnarinnar og lögðu fram kröfu um að lýst yrði yfir neyðarástandi, um svipað leyti og Björk átti sinn fund með forsætisráðherra. Það var dálítið áhugavert hvernig viðbrögðin voru öll á sama veg þvert yfir ríkisstjórnina, að það væri nánast fræðilegur ómöguleiki að lýsa yfir neyðarástandi til lengri tíma. Varla væri hægt að spá í þessa kröfu af því að samfélagið gæti ekki verið í fasa neyðarástands lengi. En svo kom Covid og kenndi ríkisstjórninni kannski að þetta mat væri ekkert endilega rétt. Það var þó miklu erfiðari vinna en sú sem hér er verið að leggja til. Síðan hef ég tekið eftir að það munar ekki svo miklu á því hvernig flokkarnir fjalla um þetta í ríkisstjórn. Vinstri græn, sem á yfirborðinu hafa ágæta stefnu í loftslagsmálum, eru ekki með neitt svar við þessu ákalli um neyðarástand og segjast alltaf vilja einbeita sér að aðgerðum frekar en orðum en gera það svo ekki. Aðgerðir í samræmi við stöðuna sem ríkir eru ekki sjáanlegar. Þau afskrifa kröfuna um yfirlýsinguna sem er bæði táknræn og praktísk en gera síðan ekkert praktískt í staðinn.